„Sumt er í lögregluskýrslum en ég hef bara einhvern veginn ekki farið ofaní það, að grafa það upp. Það eru bara svo mörg vitni sem segja mér að vitneskjan er til staðar,“ segir hún.

Þetta segir Hanna Björg Vil­hjálms­dóttir, fram­halds­skóla­kennari í kynjafræði og for­maður jafn­réttis­nefndar Kennara­sam­bands Ís­lands í viðtali við Fréttavaktina á Hringbraut í kvöld.

Hún ræddi við Lindu Blöndal málefni KSÍ vegna kynferðisbrota þekktra knattspyrnumanna sem sum hafa verið viðurkennd. Hanna ýtti af stað atburðarrás með skrifum sínum sem hefur svo illa skekið KSÍ að yfirstjórnin er rúin trausti og formaðurinn, Guðni Bergsson sagði af sér. Stjórnin ákvað á fundi sínum í kvöld að segja af sér.

Hópnauðganir

Hanna birti grein fyrir um hálfum mánuði síðan, frásögn konu um hópnauðgun þekktra knattspyrnumanna og svo hafi önnur saga af hópnauðgun borist henni nýlega og margar frásagnir til viðbótar. „Ég er ekki búin að telja en sumt er alveg staðfest.“

„Málið er að andrúmsloftið í menningunni okkar, í víðu samhengi, gagnvart þolendum er óþolandi,“ segir Hanna og konurnar sem eru oftast þolendur séu smættaðar. „Þær eru véfengdar og það er bara ráðist að persónu þeirra og þegar þú ert búin að lenda í ofbeldi og færð svo aftur svona andlegt ofbeldi frá samfélaginu, afneitun á að ofbeldið hafi gerst, og þú sért bara athyglissjúk og með dylgjur og guð veit hvað þær heyra, að þá er þeim bara gert ókleift að stíga fram,“ segir Hanna.

Að trúa þolendum og rannsóknir

„Það sem þarf að gera, og það sem við sem samfélag þurfum að gera, við þurfum bara að segja: Ég trúi þolendum, punktur.“

Tölfræðin segir að flestir þolendur segi satt en því sé öfugt farið á hinn veginn. „Tölfræðilega er mjög líklegt að gerendur ljúgi,“,segir Hanna. „Ef við ætlum að vinna þetta út frá vísindum þá trúum við þolendum.“

Hanna var gestur Fréttavaktarinnar á Hringbraut í kvöld.
Mynd/Hringbraut

Bent á hvort ekki sé um að ræða „meint“ kynferðisbrot þar til sekt sé sönnuð og efla þurfi helst rannsóknir lögreglu og láta réttarríkið um þetta, segir Hanna Björg að enginn vafi leiki á trúverðugleika frásagna kvennanna. Og þetta: „ Það hefur enginn neitað neinu.“

Halda verður til haga að Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður hefur hafnað ásökunum á hendur sér að hafa brotið kynferðislega á stúlku á netinu.