Tilefni sjávarútvegsskýrslu Stundarinnar, sem birt var í dag, eru óskir Hönnu Katrínar Friðriksson, þingmanns Viðreisnar, ásamt fleiri þingmönnum. Hanna Katrín fagnar skýrslunni.

„Það er nákvæmlega þetta sem ég var að kalla eftir. Að fá nákvæma, fá skýra mynd af ítökum útgerðarinnar í íslensku samfélagi og atvinnulífi utan þeirra kjarnastarfsemi,“ segir Hanna Katrín í samtali við Fréttablaðið.

Földu sig á bakvið persónuverndarnefnd

Hanna Katrín og félagar óskuðu eftir skýrslu fyrir um það bil ári síðan frá sjávarútvegsráðherra og var gerð krafa um að hún innihéldi upplýsingar um eignarhald tuttugu stærstu útgerðarfélaga landsins og tengdra félaga í íslensku atvinnulífi. Þegar tiltekin skýrsla kom út, átta mánuðum eftir að Alþingi samþykkti beiðni Hönnu Katrínar og félaga kom út skýrsla frá sjávarútvegsráðherra. Hún innihélt þó ekki allar upplýsingar sem sérstaklega var óskað eftir, eignarhaldi tuttugu stærstu útgerðarfélaga landsins og upplýsingum um fjárfestingar þeirra.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, bar fyrir sig persónuverndarlög. Þau kæmu í veg fyrir að hægt væri að birta allar upplýsingar um eignarhald útgerðarfélaganna. Persónuvernd vísaði þessum ásökunum á bug og sögðu stofnunina notaða sem skálkaskjól til þess að leyna upplýsingum sem vörðuðu mikilvæga almannahagsmuni.

Stundin tók sig því til og gaf út nýja skýrslu í dag sem inniheldur allar upplýsingar um allt það sem útgerðin á. Eignatengsl á milli útgerðarfélaga og eigenda þeirra sýni að þrjár blokkir fari með völdin. Guðmundur Kristjánsson í Brim sé sá einstaklingur sem fari með stærstan hlut kvótans.

Skýrsla ráðuneytisins innantóm

Hanna Katrín segist ekki hafa lesið skýrslu Stundarinnar í Þaula vegna anna í dag en hún segist ekki sjá betur en að allar upplýsingar liggi nú fyrir.

„Það kom fram fyrir kosningar að ráðuneytið byrjaði að vinna skýrsluna svona, það voru upplýsingar af þessum toga í fyrstu drögum skýrslunnar, en svo hefur verið tekin ákvörðun innan ráðuneytisins að skila skýrslunni innantómri,“ segir Hanna Katrín.

„Ég er bæði glöð að sjá þetta, því þetta eru mikilvægar upplýsingar. Að sama skapi þá er það mjög aðkallandi spurning hvers vegna þetta var ekki svona í skýrslu stjórnvalda eins og Alþingi bað um.“

Þrjár blokkir fari með völdin

Samherji og Síldarvinnslan eru þær útgerðir sem eru í sérflokki í fjárfestingum í óskyldum greinum að því er fram kemur í skýrslu Stundarinnar.

Stærsta blokkin af þremur samanstandi af Samherja Ísland, Útgerðarfélagi Akureyringa, Síldarvinnslunni, Berg-Huginn, Runólfi Hallfreðssyni og Gjögri. Þessi félög eru í eigu sömu einstaklinga sem fara með stóra eignarhluti í Síldarvinnslunni. Samtals fer þessi hópur með 20,49 prósent kvótans.

Næst á eftir þeim sé samstæða Útgerðarfélags Reykjavíkur, Brims, Ögurvíkur og Grunns. Brim eigi svo 40,8 prósenta hlut í Þórsbergi efh. Útgerðin KG Fiskverkun ehf. Sé sjálf hluthafi í Samherja og þar með hluthafi í allri keðjunni. Guðmundur í Brim fari fyrir þessum hópi, sé langstærsti einstaki fjárfestirinn í þessum fyrirtækjum. Þessi hópur fyrirtækja fer með 15,62 prósent kvótans.

Þriðja og síðasta blokkin, jafnframt sú minnsta, saman standi af FISK-Seafood, Vinnslustöðinni, Soffanías Cecilssyni, Huginn og Eskju. FISK sé að öllu leyti í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og í gegnum eignarhaldsfélag FISK fari kaupfélagið með nærri þriðjungshlut í Vinnslustöðinni, sem eigi svo lítinn hlut í Eskju í gegnum hlut sinn í útgerðinni Huginn. Saman fari þessi hópur fyrirtækja með 10,81 prósent kvótans.