Þarna yrðu í­búðir fyrir konur yfir sex­tugt sem að­hyllast femín­isma, sjálf­bærni og sam­stöðu,“ segir Sig­ríður Elfa Sigurðar­dóttir, mynd­listar­kona og hönnuður.
Sig­ríður er í hópi kvenna sem nefnist Femín­istar 60+ en þær hyggjast koma á fót sam­eigin­legum bú­setu­kjarna þar sem konur njóta stuðnings og sam­neytis við aðrar konur með svipuð lífs­gildi. Þær eru í sam­floti með Þorpi vist­fé­lagi sem mun byggja á bruna­rústum Bræðra­borgar­stígs og í kring.

Runólfur Ágústs­son, verk­efnis­stjóri Þorps, segir upp­bygginguna miðast við að slíkt systra­hús verði þar og hönnun og skipu­lag verði í sátt og sam­vinnu við borgar­yfir­völd, Minja­stofnun og nær­um­hverfið. Lík­lega verða þar 26 litlar í­búðir en sam­eigin­leg rými stór, svo sem eld­hús, þvotta­hús og jóga­salur og úti gróður­hús, heitur pottur og annað í kringum sól­ríkan miðju­garð.

„Við vorum fimm vin­konur sem byrjuðum að ræða þetta og það er margt opið enn,“ segir Sig­ríður. Hún segir þær hafa orðið varar við mikinn á­huga á þessu bú­setu­formi hjá konum á besta aldri sem vilja þó að sama skapi virða einka­líf sitt.

Fé­lagið Femín­istar 60+ verður form­lega stofnað þegar fram­kvæmdir hefjast sem verður að líkindum eftir rúmt ár, fari allt sem horfir. „Fé­lagið verður þá vett­vangur sam­eigin­legra lífs­gilda og reglna og þar má hugsa sér bæði konur og karla, svo lengi sem við­komandi að­hyllist sam­bæri­leg lífs­gildi um gagn­kvæma virðingu. Bú­setan yrði þó alltaf bara fyrir konur.“
Bú­setu­formið tekur mið af Baba Yaga-hug­mynda­fræðinni en þannig í­búða­kjarnar voru fyrst settir upp í París árið 2012 af rót­tækum femín­istum. „Systra­hús er mjög fal­legt orð en við höfum líka kallað þetta norna­hús en Baba Yaga er norn í þekktri slav­neskri þjóð­sögu,“ upp­lýsir Sig­ríður.

Þorp vist­fé­lag hefur staðið að byggingu á annað hundrað ó­dýrra í­búða fyrir ungt fólk í Gufu­nesi sem er fyrir­mynd fyrir fjöl­býlið.
Slíkar í­búðir eru seldar á föstu verði með mikilli sam­eign. „Á­skorunin á Bræðra­borgar­stíg er að ná nauð­syn­legum fjölda í­búða til að standa undir sam­eigninni án þess að þær verði allt of dýrar en að stíga á sama tíma „létt til jarðar“ í skipu­lags­málum til að raska ekki skipu­lagi götu­myndarinnar,“ segir Runólfur.

Sig­ríður Elfa Sigurðar­dóttir, mynd­listar­kona og hönnuður.
Fréttablaðið/Valli