Þarna yrðu íbúðir fyrir konur yfir sextugt sem aðhyllast femínisma, sjálfbærni og samstöðu,“ segir Sigríður Elfa Sigurðardóttir, myndlistarkona og hönnuður.
Sigríður er í hópi kvenna sem nefnist Femínistar 60+ en þær hyggjast koma á fót sameiginlegum búsetukjarna þar sem konur njóta stuðnings og samneytis við aðrar konur með svipuð lífsgildi. Þær eru í samfloti með Þorpi vistfélagi sem mun byggja á brunarústum Bræðraborgarstígs og í kring.
Runólfur Ágústsson, verkefnisstjóri Þorps, segir uppbygginguna miðast við að slíkt systrahús verði þar og hönnun og skipulag verði í sátt og samvinnu við borgaryfirvöld, Minjastofnun og nærumhverfið. Líklega verða þar 26 litlar íbúðir en sameiginleg rými stór, svo sem eldhús, þvottahús og jógasalur og úti gróðurhús, heitur pottur og annað í kringum sólríkan miðjugarð.
„Við vorum fimm vinkonur sem byrjuðum að ræða þetta og það er margt opið enn,“ segir Sigríður. Hún segir þær hafa orðið varar við mikinn áhuga á þessu búsetuformi hjá konum á besta aldri sem vilja þó að sama skapi virða einkalíf sitt.
Félagið Femínistar 60+ verður formlega stofnað þegar framkvæmdir hefjast sem verður að líkindum eftir rúmt ár, fari allt sem horfir. „Félagið verður þá vettvangur sameiginlegra lífsgilda og reglna og þar má hugsa sér bæði konur og karla, svo lengi sem viðkomandi aðhyllist sambærileg lífsgildi um gagnkvæma virðingu. Búsetan yrði þó alltaf bara fyrir konur.“
Búsetuformið tekur mið af Baba Yaga-hugmyndafræðinni en þannig íbúðakjarnar voru fyrst settir upp í París árið 2012 af róttækum femínistum. „Systrahús er mjög fallegt orð en við höfum líka kallað þetta nornahús en Baba Yaga er norn í þekktri slavneskri þjóðsögu,“ upplýsir Sigríður.
Þorp vistfélag hefur staðið að byggingu á annað hundrað ódýrra íbúða fyrir ungt fólk í Gufunesi sem er fyrirmynd fyrir fjölbýlið.
Slíkar íbúðir eru seldar á föstu verði með mikilli sameign. „Áskorunin á Bræðraborgarstíg er að ná nauðsynlegum fjölda íbúða til að standa undir sameigninni án þess að þær verði allt of dýrar en að stíga á sama tíma „létt til jarðar“ í skipulagsmálum til að raska ekki skipulagi götumyndarinnar,“ segir Runólfur.
