Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 18. febrúar 2022
23.00 GMT

Áhrif áfalla í æsku eru Diljá hugleikin en sjálf hefur hún öðlast nýja sín á sjálfa sig og æskuárin sem einkenndust af vanrækslu og öryggisleysi, með því að skoða áföll formæðra sinna og áhrif þeirra.

Við getum uppgötvað fortíðina upp á nýtt, aftur og aftur, og það er oft mikil heilun fólgin í því að skilja af hverju við erum er eins og maður er. Okkur hefur jafnvel verið kennt að eitthvað sé að okkur - en ég held að afleiðingar geti ekki verið án orsaka,“ segir Diljá í upphafi samtals okkar.

Diljá er nýútskrifuð úr sálgæslunámi við Háskóla Íslands en áhuginn á náminu kviknaði þegar hún sjálf þáði slíka hjálp á Vökudeild árið 2018 með tveggjamarka dóttur sína sem þar greindist jafnframt með Downs heilkennið. Í sálgæslunáminu fór Diljá að skoða fortíð sína og formæðranna og fékk nýja sýn á líf sitt og þeirra.

„Ég elst að mjög stórum hluta til hjá ömmu minni sem var einn Íslandsmeistaranna í alkóhólisma, þó margir keppendur hafi tekið þátt,“ segir hún í léttum tón.

„Ég man eftir mér sem barni sem var sífellt að reyna að fegra heiminn sinn og átti ég það til að segja upp úr þurru í skólanum að hjá okkur hefði verið matur klukkan sjö í gær, nánar tiltekið steiktur fiskur í raspi, þegar það var alls ekki.“

Foreldrar Diljár slitu sambandi áður en hún kom í heiminn en bæði voru þau aðeins 19 ára gömul.

„Sjálf voru þau börn alkóhólista og alin upp í þessu skakka alkóhólíska fjölskyldukerfi og því ekki alltaf með burði til þess að umvefja mig stöðugleikanum sem ég þurfti.“


Skekkt fjölskyldukerfi

Diljá segir að í fyrsta tímanum í sálgæslunáminu hafi kviknað ákveðið ljós, þegar kennarinn teiknaði upp einfalda mynd af fjölskyldukerfi.

„Hann bætti svo við myndina áfalli einhvers í fjölskyldunni sem skekkir myndina ef ekki er unnið úr því. Þannig geta heilu fjölskyldukerfin orðið skökk, í margar kynslóðir.“


„Ég elst að mjög stórum hluta til hjá ömmu minni sem var einn Íslandsmeistaranna í alkóhólisma, þó margir keppendur hafi tekið þátt.“


Eins og fyrr segir ólst Diljá mikið til upp hjá móðurömmu sinni og voru þær mikið tvær enda afinn mikið úti á sjó. Þar upplifði hún aðstæður sem ekkert barn ætti að þurfa að takast á við en segist þó ekki hafa farið að kafa djúpt í það fyrr en nýverið í náminu.

„Ég áttaði mig ekki alveg á því fyrr en þarna, að það er eitthvað sem gerist lengst aftur í fortíð sem veldur því að ég elst upp við svona átakanlegar aðstæður.“

Á uppvaxtarárunum faldi hún heimilisaðstæðurnar.

„Ég átti aldrei að tala um það að amma væri að drekka og hún viðurkenndi það aldrei sjálf, jafnvel þó hún lægi áfengisdauð á geymslugólfinu búin að pissa og kúka á sig. Á unglingsáraunum fór ég að horfast í augu við alkóhólismann en ég hugsaði með mér að hann væri í öllum fjölskyldum og tók þetta áfram á hörkunni.“


Bjuggu inni á skemmtistað


Í Alanon lærði Diljá hvernig hún gæti átt átakaminni samskipti við ömmu sína sem hafði oft reynst erfitt.

„Enda getur alkóhólistinn verið svo óbærilegur og þannig gert manni erfitt að elska hann.“

Öryggisleysið var meginstef æskunnar.

„Eitt sinn þurfti lögreglan að sækja mig á Hótel Esju þegar amma var dauð fram á borðið.

En svo átti ég líka mínar bestu æskuminningar hjá ömmu. Þegar hún var ekki full var hún besta manneskja í heimi sem umvafði mig ást og gerði allt fyrir mig. Þetta breyttist svo allt við einn sopa. Þá voru ljósin slökkt, lyktin súr og hún dró sængina upp fyrir haus.“

Móðir Diljár vann á þessum tíma í veitingageiranum og því mikið um kvöld og helgar og Diljá fór til föður síns aðra hvora helgi.

„Mamma stofnaði árið 1987 skemmtistaðinn 22 og við bjuggum um tíma í einu herbergja staðarins. Ég fattaði þá ekki alveg hvað þetta var rangt. Ég man eftir að hafa farið niður í eldhús og grillað mér samlokur. En ég svaf ekki vel, þetta voru alls ekki góðar aðstæður fyrir barn að búa við. Ég faldi heimilisaðstæður í skólanum því ég þráði ekkert heitara en að eiga mömmu sem bakaði kanilsnúða með svuntu og fór með mér út í snjókast, það var alls ekki lífið okkar.“


„Mamma stofnaði árið 1987 skemmtistaðinn 22 og við bjuggum um tíma í einu herbergja staðarins."


Taugakerfið geymir þessar sögur


Diljá bendir á að varnarhættir þeir sem barn skapar sér í óbærilegum aðstæðum fylgi þeim inn í fullorðinsárin þar sem þeir geti orðið að hindrunum.

„Við beitum þeim þegar við erum undir miklu álagi enda geymir taugakerfið þessar sögur og sérstaklega hefur þetta áhrif ef við vinnum ekki úr þeim.“

Áhrif áfalla í æsku á fullorðinsárin eru eins og heyra má Diljá hugleikin.

„Við verðum að skilja af hverju við bregðumst stundum við aðstæðum í nútímanum á vissan hátt vegna gamalla sára. Barnið er að bregðast við og varnarkerfið sem við bjuggum þá til tekur yfir.“


Þetta er ekki einkamál


Brynhildur, amma Diljár lést í nóvember síðastliðnum en mánuðinn fyrir andlátið hafði Diljá lesið bókina Óstýriláta móðir mín og ég, eftir Sæunni Kjartansdóttur.

„Í bókinni sýnir Sæunn fram á að sagan hennar ömmu er sagan hennar mömmu. Mamma sem er fædd árið 1959 var lausaleikskrói sem á þeim tíma var agalegur dómur. Hún ólst upp við óbærilega erfiðar aðstæður sem svo gerði það að verkum að hún hafði ekki endilega burði til að vera akkúrat „topp class“ móðir fyrir mig.

Diljá tekur fram að í dag sé hún mjög náin báðum foreldrum sínum.

„Það hefur verið mjög markviss vinna hjá okkur öllum að taka okkar grunn og bara ummolda hann.“


„Það hefur verið mjög markviss vinna hjá okkur öllum að taka okkar grunn og bara ummolda hann.“


Diljá á í dag þriggja ára gamla dóttur, Lunu og tekur móðir hennar virkan þátt í uppeldi hennar.

„Ég vissi það alltaf að um leið og mamma yrði amma yrði hún betri mamma, og það gerðist. Á sama tíma var amma Bryn mjög léleg mamma fyrir mömmu en þrátt fyrir þessa hræðilegu fíkn sem hún var haldin gerði hún allt fyrir mig. Það get ég skrifað á hennar eigin móðurlega samviskubit.“

„Það sem ég er að sjá í dag er hversu mikil mótandi áhrif þessi vanræksla og öryggisleysi í æsku hefur á núið. Mér finnst svo mikilvægt að tala um það í samhengi við börn sem nú lifa sína barnæsku.

Við þurfum í stjórnsýslunni að vera hugrökk að grípa inn í. Það eiga að vera verndandi þættir í skólakerfinu svo til séu tól og tæki og aðferðir til að grípa inn í. Þetta er ekki einkamál. Áfallasaga kvenna er að verða ein merkilegasta og viðamesta rannsókn sem við í stjórnsýslunni getum stuðst við til að geta tekist á við slík mál.“

Mæðgurnar Diljá og Luna. „Þegar maður er aðallega að vona að barnið manns lifi af er einn aukalitningur bara mega næs,“ segir Diljá. Fréttablaðið/Sigtryggur ari

Drykkjan varnarháttur


Þegar amma Diljár lá banaleguna undir lok síðasta árs reyndu þær mæðgur að fá eitthvað upp úr henni varðandi hennar uppvaxtarár fyrir Vestan en án árangurs.

„Hún fékk svo að fara eins og hún þráði og þar sem við sátum yfir henni ásamt bestu vinkonu hennar og systur spurðum við þær út í það sama. Þá fengum við þessar sögur; af sundlaugaverðinum í grunnskólanum á Ísafirði sem var greinilega alltaf að gefa henni pening og fyrstu viðbrögð sem hún fékk var að hætta að þiggja þennan pening, hún var bara sjö ára en var gerð ábyrg.

Á sumrin fór hún svo í sveit í Súgandafirði til bónda sem var frægur predator. Skólastjórinn í gagnfræðiskólanum var svo alltaf að leyfa stelpunum að fara í handavinnustofuna á kvöldin en amma var alla tíð mikil handavinnukona. Hann mætti svo sjálfur til þeirra og stuttu eftir eina heimsóknina klippir amma flétturnar af sér. Ég hafði oft heyrt þá sögu en átta mig bara á því nú í seinni tíð hvað þetta þýðir,“ segir hún.

„Amma flytur svo ung í bæinn og er þá orðin mjög drykkfelld sem hefur verið hennar varnarháttur til að lifa þetta af. Hún drekkur svo illa svo oft og það eru margir menn sem misnota sér þessa drukknu konu.“

Diljá bendir á að hugsanahátturinn þurfi að breytast.

„Við þurfum að fara að hætta að segja: Hvað er að þessari konu? Af hverju er hún svona full og lauslát? Við eigum frekar að spyrja hvað kom fyrir.

Ég er ekkert að segja að þetta eigi bara við konur heldur alla. Það var eitthvað sem kom fyrir. Það er mjög líklegt að það hafi einhver verið vondur við fullu konuna á barnum sem er að detta eða reyna að fara í sleik við einhvern. Það felst mikið meiri mannvirðing og gæska í því að hugsa þetta þannig.“


„Við þurfum að fara að hætta að segja: Hvað er að þessari konu? Af hverju er hún svona full og lauslát?"


Við þurfum að hjálpa kennurum og leikskólastarfsfólki að hætta að horfa bara ofan í námsárangur og hegðun og skoða frekar hvað amar að, hvers vegna þessi eða hinn sé ekki að lesa sér til gagns. Eigum við að skoða þetta út frá þeim þætti eða eigum við að halda áfram að senda bara einhverjar niðurstöður til Písa?“


Saga ótal kvenna


Diljá segir sögu ömmu sinnar langt frá því að vera einstök.


„Hún er saga ótal kvenna af hennar kynslóð þar sem skilaboðin voru að þetta væri þeirra skömm. Þær hefðu látið þetta yfir sig ganga. Það særði mig virkilega að horfa nýlega upp á þessa meingölluðu hegðun formanns SÁÁ.

Við verðum að fara að hanna meðferðarkerfi hér á landi sem er ekki aðeins reaktívt heldur vinnur í orsökinni og er áfallamiðað eins og Rótin hefur verið að benda á.“

„Það er ekki agalegt að vera afskiptasamur. Það er hægt að gera það af umhyggju og ég held að við verðum að umbylta kerfinu hvað þetta varðar.

„Það er magnað að átta sig á því að ég lifi við afleiðingar ofbeldis sem átti sér stað í kringum 1940. Minn persónuleiki hefur mótast af því, bæði mín viðkvæmni og líka mín seigla. Það er talað um að áföll erfist og þau séu í DNA uppbyggingu okkar en ég held að skakka fjölskyldukerfið og samskiptamynstrin hafi enn meiri áhrif.“


„Það er magnað að átta sig á því að ég lifi við afleiðingar ofbeldis sem átti sér stað í kringum 1940."


Diljá fór að búa ein 17 ára, leigði í Miðbænum og gekk í Kvennaskólann.


„Á fyrsta ári í Kvennó sótti ég um menntastyrk til Reykjavíkurborgar,“ segir Diljá sem vann með skólanum en segir álagið á köflum hafa verið of mikið en á þessum tíma var móðir hennar í námi í Hollandi.

„Þá var Guðrún Ögmundsdóttir, heitin, formaður félagsmálanefndar en hún hafði passað pabba þegar hann var lítill og alla tíð veitt mér verndandi væng.“
Umsókninni var synjað enda styrkurinn aðallega hugsaður fyrir nemendur utan af landi. Diljá ákvað að hætta í skóla og fara að vinna í Kjörgarði.

„Þá hringir Guðrún í mig og segist hafa breytt reglunum til þess að fleiri nemendur eigi rétt á honum. Hún sagði svo við mig: „Sýndu mér það elsku Diljá mín, að það verði eitthvað úr þér, með allan þennan kraft sem þú hefur.“


„Hún sagði svo við mig: „Sýndu mér það elsku Diljá mín, að það verði eitthvað úr þér, með allan þennan kraft sem þú hefur.“


Ég heyrði eftir á að margir í mínu umhverfi, börn einstæðra mæðra í Þingholtunum sem var náttúrlega bara gettó á þessum árum, hefðu fengið styrk og getað klárað framhaldsskóla og farið í háskólanám.

Þegar Guðrún lést fór ég að rifja þetta upp, hvernig vilji manneskju með hjartað á réttum stað getur haft drastísk áhrif á líf annarra og þar af leiðandi afkomenda þeirra. Vonandi get ég orðið sú manneskja í lífi einhverra með mínum störfum.“


Nauðgað eftir jólaball

Diljá bendir á að þeir sem upplifi áföll í æsku séu jafnvel útsettari fyrir frekari áföllum eða skökkum samskiptum, en annan í jólum árið 1999 varð Diljá fyrir áfalli sem hefur haft gríðarleg áhrif á líf hennar og persónu en hún hefur aldrei fyrr sagt frá opinberlega.

Það var eftir jólaball á skemmtistaðnum Ingólfscafé að kunningi Diljár fylgir henni heim.

„Eftir ballið var enga leigubíla að fá svo ég leyfi honum að koma með mér heim til að hringja á leigubíl þaðan enda fáir með gemsa á þessum tíma og ég bjó í Skólavörðuholtinu. Þegar við komum heim var ég orðin pínu full og sofna en vakna við það að hann er, ég get varla sagt setninguna, að nauðga mér. Ég fraus algjörlega,“ segir hún og það leynir sér ekki að það tekur á að rifja upp þennan atburð sem átti sér stað fyrir 22 árum.


„Þegar við komum heim var ég orðin pínu full og sofna en vakna við það að hann er, ég get varla sagt setninguna, að nauðga mér."


Diljá segir afleiðingar nauðgunar sem hún varð fyrir tvítug hafa verið miklar en einnig hafi það haft jákvæð áhrif að gerandinn tók 15 árum síðar ábyrgð á verknaðinum. Fréttablaðið/Sigtryggur ari

Þetta var lokaárið í Kvennó og desember myrkrið alltumlykjandi.

„Ég lokaði mig algjörlega af í tvær til þrjár vikur og vakti allar nætur í einhvers konar taugaáfalli. Ég var að reyna að finna leið til að lifa þennan sársauka af með því að afneita því að þetta hefði gerst. Þá komst ég að því að ég er ólétt.“

Við þær fréttir byggði hún upp kjark til að segja einni vinkonu frá því sem hafði gerst. „Hún hvatti mig til að segja mömmu sem ég gerði og líka pabba mínum og stjúpu.“


Ráðlagt að gleyma þessu


Diljá fór í þungunarrof og í kjölfarið sagði hún nánustu vinkonum sínum og fékk pláss í stuðningshópi í Stígamótum sem hún hitti fram á vorið.


„Með mér í hópnum er ein vinkona mín og þolandinn í Húsavíkurmálinu,“ segir Diljá og vitnar þar í það þegar 113 manns skrifuðu undir undirskriftarlista til stuðnings dæmds nauðgara á Húsavík árið 2000."

„Umfjöllun um það mál var allt annað en þolendavæn og fór svo að hún flúði bæjarfélagið og ég man hversu mikil áhrif þetta hafði á okkur í hópnum.“


„Ég var að reyna að finna leið til að lifa þennan sársauka af með því að afneita því að þetta hefði gerst. Þá komst ég að því að ég er ólétt.“


Ofbeldismál hafa lengi verið Diljá hugðarefni og hefur hún látið til sín taka í umræðu um þau.

„En aldrei hef ég getað sagt frá því að mér hafi líka verið nauðgað. Ég áttaði mig nýlega á því hvers vegna. Ég var með það inni í kvikunni minni að ég fengi allt samfélagið upp á móti mér,“ segir hún og tengir það við téð Húsavíkurmál og frásögn þolandans.

„Þegar þú ert svona mikið í kringum einhvern í áfalli þá verður það að einhverju leyti þitt.“

Diljá kærði nauðgunina ekki. Eftir að hafa leitað til lögfræðings, sem eftir stutt samtal sagði henni að gleyma þessu, missti hún kjarkinn.

„Það er svo mikil skömm sem felst í því að það vildi ekki einu sinni óháður aðili staðfesta að á mér hefði verið brotið því ég held að innst inni sé það, það sem við þráum, að það sé staðfest.

Ég er löskuð eftir þetta, ég er sterk að mörgu leyti, ég er mjög sterk félagslega og á mikið af vinum og vel tengd, líka sjálfri mér og mínu fólki og ég legg mikið upp úr því. en hef ég getað leyft einhverjum að elska mig? Nei. Ég er alltaf með þennan olíublett á bringunni og hrædd um að fólk sjái hvað ég er skítug.“


„Ég er alltaf með þennan olíublett á bringunni og hrædd um að fólk sjái hvað ég er skítug.“


Nauðgarinn tók ábyrgð

Mín saga er ekki einstök og ekki verri né betri en annarra. Þetta eru allt agalegar sögur enda ofbeldi svo skaðlegt mein. En það er eitt við mína sögu sem ég held að sé því miður sjaldgæfara,“ segir Diljá og á þá við að árið 2015 axlaði gerandinn ábyrgð á nauðguninni.

„Í þessu litla sjávarþorpi sem við búum í, er vinkona mín á sama tíma og fyrsta samfélagsmiðlabyltingin, svokölluð „Beautytips bylting“ á sér stað, að eignast nýjan mann og i ljós kemur að vinur hans er gerandinn minn.“

Í kjölfar umræðunnar á samfélagsmiðlum gengst hann við verknaði sínum við vin sinn. „Hann brotnar niður og segist hafa fyrirlitið sjálfan sig í öll þessi ár vegna þessa. Hann sagðist vilja taka skömmina frá mér en vissi ekki hvernig hann færi að því og spurði þessa sameiginlegu vini okkar hvað hann ætti að gera.“


„Hann brotnar niður og segist hafa fyrirlitið sjálfan sig í öll þessi ár vegna þessa."


Diljá segir þær fréttir hafa verið meira áfall en hana hefði grunað.

„Ég öskurgrét og áttaði mig þá ábyrgðinni sem ég var alltaf að taka: Ég hlyti að hafa boðið upp á þetta, ég tók hann með mér heim, ég hlyti að hafa sagt eitthvað. Samt var ég búin að fara í mikla sjálfsvinnu.“

Diljá leitaði til Drekaslóðar í framhaldi af fréttunum og það tók hana tíma að átta sig.

„Afleiðingar ofbeldisins eru ekki bara það að ég hafi ekki eignast mann og gift mig heldur var ég oft búin að koma illa fram við sjálfa mig. Ég vissi ekki hvar mín mörk lágu. Ég var búin að velja mér öll erfiðustu verkefnin í karlamálum. Það er oft sat að maður leyfi ofbeldinu að lifa með sér með því að fara yfir eigin mörk, að maður verði lauslátur til að reyna að fá völdin sem voru tekin af manni eina nótt og geta stýrt ferðinni.“


Fordæmi fyrir aðra gerendur

Það að umræðan hafi fengið gerandann til að axla ábyrgð segir Diljá hafa veitt henni trú á að byltingarnar séu að virka.

„Þöggunin er ekkert alltaf besti vinur gerandans. Gerandinn minn á í dag konu og barn og það að hann hafi stigið þetta skref hlýtur að vera heilandi fyrir fólkið í kringum hann.“


„Gerandinn minn á í dag konu og barn og það að hann hafi stigið þetta skref hlýtur að vera heilandi fyrir fólkið í kringum hann.“


Diljá segir að sér hafi staðið til boða að vinna úr þessu á þann hátt sem hún vildi og hún hafi fengið allan þann stuðning sem hún þurfti. En hún valdi ekki að hitta gerandann.

„Við vissum um Heimilisfrið, sem býður þeim sem beita ofbeldi, meðferð, og við lögðum til að hann færi þangað, sem hann og gerði. Ég finn ekki þörf fyrir að setjast niður með honum en finn hversu mikill friður varð innra með mér við það að hann staðfesti að hann hefði brotið á mér.

Ég er ekki að segja þessa sögu til að skila skömminni, ég fékk að gera það fyrir nokkrum árum. Ég er búin að skila henni til hans því hann tók við henni. Mig langar til að segja þessa sögu því kannski gæti hún orðið fordæmi fyrir aðra gerendur, þó alltaf á forsendum þolendanna."


„Ég er ekki að segja þessa sögu til að skila skömminni, ég fékk að gera það fyrir nokkrum árum."


Vantar úrræði fyrir gerendur


Við verðum líka að búa til fleiri úrræði fyrir gerendur til að taka ábyrgð á verknaði sínum eða glæp og þannig held ég að ofbeldismenningin eigi eftir að dvína.

Í leiðinni verðum við að grípa fyrr inn í hjá börnum sem búa við óásættanlegar aðstæður og þannig koma í veg fyrir að þau séu aftengd öðrum og stundi því áhættuhegðun eða ofbeldi. Þetta hangir allt saman en við verðum að fara að forgangsraða þessum „mjúku málum“ sem mér finnst vera hörðustu málin, miklu ofar.“

Diljá segir sjálfstraustið og sjálfsvirðinguna hafa vaxið undanfarin ár og það hafi sjálfkrafa gerst með móðurhlutverkinu.

„Ég hef fengið áþreifanlega stærri verkefni með Lunu en líka áþreifanlega miklu stærri gjafir,“ segir hún um ljósið í lífi sínu, litlu dótturina Lunu.


„Ég hef fengið áþreifanlega stærri verkefni með Lunu en líka áþreifanlega miklu stærri gjafir.“


„Það er einmitt um þetta leyti fyrir fjórum árum sem ég er nýbúin að komast að því að ég sé ólétt. Komandi frá einstæðum mæðrum fannst mér ekkert ólíklegt, alla vega í fyrsta sinn að ég yrði einstæð móðir og ég óttaðist það ekki neitt,“ segir Diljá sem frá fyrsta degi hefur ein séð um umönnun og uppeldi dótturinnar.


Dóttirin fæddist tvær merkur

„Það var í 20 vikna sónar um miðjan maí, þar sem kemur í ljós að um stelpu sé að ræða, að það sést að hún sé með aðeins styttri útlimi en eðlilegt telst.“


Um er að ræða eitt einkenna fóstra með Downs heilkenni en skoðunin sýndi engin önnur einkenni þess.

„Mér var þá boðið að fara í fleiri vaxtarsónara til að fylgjast betur með. Ég fagnaði því enda fengi ég þá fleiri myndir,“ segir Diljá og hlær.

Það var svo mánuði síðar í vaxtarsónar að þurrkur í naflastreng og fylgju greinist og ljóst að barnið fær ekki nægilegt súrefni né næringu.

„Mér er þá bara sagt, komin 25 vikur, að hún verði að koma í heiminn. Ég trúi ekki því sem er verið að segja við mig og spyr hvort þau geti ekkert gert, sprautað mig bara.“

Henni er sagt að ná verði í barnið innan skamms og fjórum dögum síðar, á 26 viku meðgöngu er fæðing sett af stað.

„Hún fæðist 22. júní, nokkrum stjörnumerkjum á undan áætlun eða þremur og hálfum mánuði. Hún var aðeins 510 grömm eða tvær merkur og 29 sentiímetrar og langsamlegasta minnsta manneskjan á landinu þá. Hún bjó á vökudeild í fjóra mánuði eða fram í miðjan október 2018. Þar áttum við dásamlega tíma en líka oft mjög átakanlega.“


„Hún var aðeins 510 grömm eða tvær merkur og 29 sentiímetrar og langsamlegasta minnsta manneskjan á landinu þá."


Fyrsti kossinn frá mömmu, þarna er Luna þriggja vikna og Diljá fær að halda á henni í fyrsta sinn. Mynd/aðsend

Skellurinn kom aldrei


Diljá fékk sálgæslu frá Séra Vigfúsi Bjarna Albertssyni og segir að það samtal hafi fylgt henni vel inn í verkefnið framundan.

„Í mínu tilfelli var þetta bara eins og að fá bestu mögulega fjallgönguskóna og nesti á leiðinni upp fjallið. Þarna var ég með litla barnið sem ekki var sjálfgefið að lifði þtta af en upplifði endurstillingu á sál og huga og ég heillaðist af þessu fyribæri.“

Þegar Luna var vikugömul kom í ljós að hún er með Downs heilkennið en Diljá segir það að eiga fatlað barn ekki hafa komið henni sérstaklega á óvart, innsæið hafði sagt henni það lengi.

„Fyrstu dagana eftir fréttirnar var ég alltaf að bíða eftir skellinum, en hann kom aldrei. Þegar maður er aðallega að vona að barnið manns lifi af er einn aukalitningur bara mega næs,“ segir Diljá.


„Þegar maður er aðallega að vona að barnið manns lifi af er einn aukalitningur bara mega næs."


„Svo hef ég komist að því, að alla vega á fyrstu árum barna með Downs heilkennið, eru móttökur kerfisins þvílíkt góðar og ég upplifi oft að við séum á rauðum dregli.

Ég veit að það er ekki upplifunin með allar fatlanir en það er mikilvægt að kerfið standi ekki í vegi fyrir hamingju fjölskyldna fatlaðra barna. Greiningar eru eitt og lífsins verkefni er annað og við fáum þau alltaf upp í hendurnar. Ef viðhorfið er nokkuð jákvætt getum við lifað góðu lífi. Stundum er lífið bara mjög erfitt en það þarf ekki að vera vont.“

Luna hefur upplifað ýmsar áskoranir á stuttri ævi og segir Diljá vísindafólkið sjálft, læknana hafa fengið trú á kraftaverkin sem fylgt hafa þessari litlu stelpu.

„Þegar hún er níu vikna fær hún mjög alvarlega bakteríusýkingu í blóði og við vorum mjög nálægt því að missa hana,“ Diljá sótti styrk í hóp sem hún bjó til á Facebook.

„Þar bað ég fólk að senda ljós og styrk með sínu nefi og ég held að þarna hafi kraftaverkafarvegurinn myndast.“


Smáatriða þakklætið


Luna verður fjögurra ára í sumar og er umvafin ást allra í kring um sig.


„Hún er að byrja að labba sjálf og ég hugsa oft þegar ég sæki hana í leikskólann, kannski þreytt eftir langan fund:

„Þetta er ekkert sjálfgefið, hún var næstum dáin.“

Það er svo mikil gjöf að vera í svona smáatriða þakklæti og mér finnst það mjög stór partur af geðheilsunni í mínu lífi. Þegar þessir litlu hlutir verða flugeldasýning og lúðrasveit.“

Þar sem hún fæddist svo langt fyrir tímann er Luna með mjög viðkvæm lungu og hefur nokkrum sinnum þurft að leggjast inn á spítala vegna þess og segir Diljá það vera sérstakt álag sem fylgir því að eiga barn á spítala.

„Foreldri fer í baráttugír þegar barnið er veikt. Þú finnur ekki fyrir erfiðleikum með adrenalínið í botni. Svo þegar hún er orðin frísk þá krassa ég,“ segir Diljá sem er sífellt að læra betur að þiggja þá aðstoð sem henni býðst.

„Hún á tvær stuðningsfjölskyldur og þar fær hún að blómstra inni á öðruvísi heimilum þar sem eru önnur börn og dýr. Það er gjöf í allar áttir: Hún blómstrar, ég fæ frí og fjölskyldurnar græða á að vera með eina litla yndislega inni á heimilinu eina helgi í mánuði.“

Diljá segir Lunu hafa þétt raðirnar í stórfjölskyldunni. „Það hafa allir þurft að kveikja á ljósum í hjartanu þegar brekkurnar eru brattar,“ segir hún einlæg.

Diljá hefur verið dugleg að birta fréttir af Lunu á Facebook enda vill hún að fólk heyri jákvæðar upplifanir foreldra með fatlað barn. „Markmiðið er að einhver finni þakklæti og tilhlökkun ef það fær Downs greiningu fyrir barnið sitt,“ segir Diljá að lokum. Þakklát.

Athugasemdir