Ákvörðun Jóns Gnarrs, fyrrverandi borgarstjóra, um að farga Banksy málverkinu sínu hefur vakið mikla umræðu á samfélagsmiðlum á undanförnu og reyna menn að átta sig á því hvað nákvæmlega átti sér stað, hver beri ábyrgð og hvort um raunverulega list en ekki endurprentun hafi yfirhöfuð verið að ræða.

Jakob Bjarnar Gretarsson, blaðamaður, spyr þannig í stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni, hvort margir þeirra stuðningsmanna Jóns sem fordæmi nú fjölmiðla fyrir umfjöllun sína, hefðu gert það með sambærilegum hætti ef um annan stjórnmálamann hefði verið að ræða.

„Vonandi að þeim líði nú betur, er sagt af mörgum sem hefðu, ef sambærilegt mál hefði staðið uppá einhvern annan stjórnmálamann, úr annarri átt, talið fjölmiðla ganga eymingjalega fram í málinu. Það leyfi ég mér að fullyrða.“

Sjá einnig: Ætlar að farga plaggatinu

Margir blanda sér í umræðuna og þar á meðal Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, sem segir í gamansömum tóni að Jón hafi nú þrátt fyrir allt svikið borgarbúa um ísbjörninn sem hann lofaði eitt sinn.

Þá segir Bubbi Morthens að málið sé allt hið dularfyllsta og að sér sýnist Jón hafa verið tvísaga um málið og vísar þar í eldra viðtal Jóns þar sem hann lýsti verkinu sem einstöku og svo í nýjustu orð hans um að eftirprentun sé að ræða. „En ef þetta er bara 10 dollara plaggat þá er þetta stormur í vatnsglasi en kannski er fólk að hrópa vegna þess að jón gefur hér allt aðra skýringu er þetta bara lygi til að upphefja sig?“

Einfaldara að skjóta hundinn í hnakkann
Plötusnúðurinn Atli Viðar Þorsteinsson lýsir þá yfir miklum efasemdum að um alvöru mál hafi verið að ræða yfirhöfuð. Mynd Jóns hafi ekki verið upprunalegt verk, heldur endurprentun. 

„Þetta er svo dúmm á öllum levelum. Myndin er ekki orginall, kópía sem er svo mountuð á álplötu af Jóni sjálfum. Kópíuna fær hann gefins í einhverju spéi frá einhverjum sem tengist Banksy (sem ég efast um að nokkur hér á þræðinum geri sér grein fyrir hvað hann stendur fyrir í raun). Jón hefði getað nöldrað um þetta en það er svo banalt að það er einfaldara að taka þennan hund á bak við skúr og skjóta hann í hnakkann.“