Angjelin Sterka­j, albanskur maður sem hefur játað á sig morðið á Armando Beqirai, segist hafa mætt fyrir utan heimili hans í Rauðagerði þennan örlagaríka dag til þess að ræða við hann og hafi ekki ætlað að drepa hann. Segist hann hafa skotið Armando í sjálfsvörn.

Þetta kom fram í skýrslutöku Angjelin í héraðsdómi í morgun þar sem fram fer aðalmeðferð í Rauðagerðismálinu svokallaða. Hin á­kærðu auk Angjelin eru Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, unnusta Angjelin, Murat Seli­vrada og Sheptim Qerimi. Tíu til við­bótar sem voru á tíma­bili með réttar­stöðu sak­bornings í málinu voru ekki á­kærð þegar málið var þing­fest, þar á meðal einn Ís­lendingur. Í heildina voru þau fjór­tán sem lágu undir grun af ellefu þjóð­ernum.

Angjelin segir málið hafa byrjað þegar Armando kom til sín vegna ágreinings við Anton Kristinn Þórarinsson um 50 milljónir króna. Armando og aðrir hafi beðið Angjelin um að taka börnin hans „Tona“ af honum en Angjelin hafi neitað og þá hafi Armando hótað að senda hann og vini hans úr landi og aftur til Albaníu. Einnig hafi hann hótað að skera hann og son hans á háls að sögn Angjelin.

„Eftir það var meiri pressa á mér og hann var að hóta mér lífláti og syni mínum líka. Þá ákvað ég að kaupa byssu.“

Hin ákærðu í héraðsdómi í morgun.
Fréttablaðið/Anton Brink

Segir Armando hafa hótað sér

Angjelin segist hafa verið hræddur um líf sitt og vildi hitta Armando og reyna að ræða við hann til að sættast. Nokkrum dögum fyrir fundinn hittust hluti hinna ákærðu í Borgarnesi. Varðandi tengsl hinn ákærðu við málið sagðist Angjelin hafa verið einn að verki. Claudiu hafi látið Angjelin vita þegar Armando lagði af stað úr vinnunni og Sphetim hafi beðið í bílnum meðan Angjelin fór að hitta Armando.

„Þegar ég fór í Rauðagerði og bað Sphetim um að fara bílstjóramegin. Ég bað hann um að keyra svolítið þá ég vildi hitta Armando bara til að ræða við hann, vildi ekki að hann væri með öðrum,“ lýsti Angjelin í vitnastúkunni. Segist hann hafa séð Armando ná í haglabyssu úr skottinu á bílnum sínum og sett hana upp í hillu í bílskúrnum.

„Þá byrja ég að setja upp hljóðdeyfi og hann sér það,“ sagði Angjelin og hélt því fram að Armando hafi hótað sér.

„Þegar hann kom út úr bílskúrnum ætlaði ég að spjalla við hann. Armando sagðist ætla að drepa mig og börn mín og ráðast á mig. Þarna tók ég byssuna upp um leið og hann ætlaði að ráðast á mig. Þá tók ég byssuna upp og byrjaði að skjóta.“

Hafi hann þá veifað til Sphetim að koma með bílinn, farið upp í bílinn og sagt honum að keyra burt.

„Hann spurði hvort ég hefði talað við hann og ég sagði við hann að hann mun ekki hóta neinum eða drepa lengur.“ Segist Angjelin ekki hafa sagt honum að hann hefði drepið hann.