Dröfn Ösp Snorra­dóttir-Rozas er listrænn stjórnandi í leikmunadeildum og hefur um langt ára­bil starfað í kvik­mynda­geiranum í Banda­ríkjunum. Hún fer yfir þann harm­leik sem slysa­skot leikarans Alec Baldwin á töku­stað hafði í för með sér þar sem einn helsti list­ræni stjórnandi kvik­myndarinnar lést.

Dröfn ræddi við Margréti Erlu Maack í Frétta­vaktinni í kvöld. At­vikið átti sér stað á töku­stað myndarinnar í Nýju-Mexíkó þar sem að staða verka­lýðs­fé­laga starfs­fólks í kvik­mynda­iðnaði stendur ekki eins vel og annars staðar í Banda­ríkjunum.

„Þau koma í raun í veg fyrir að verka­lýðs­fé­lögin, eða fólkið í verka­lýðs­fé­lögunum, geti unnið því það er ó­dýrara,“ segir Dröfn í þættinum um tökur í Nýju-Mexíkó.

Fengu ekki greitt

„Það logar allt í fréttum út af þessu,“ segir Dröfn og að það séu núna að koma fram ýmsar sögur um það sem gekk á töku­stað eins og að töku­fólk hafi ekki fengið greitt fyrir síðustu þrjár vikurnar í vinnu en í iðnaðinum tíðkast að greiða fólki út viku­lega.

Þá segir hún að það hafi einnig, undan­farna daga, verið fjallað um að allt að fimm starfs­menn í „ca­meru­deild“ hafi sama dag og slysið átti sér stað yfirefið töku­stað vegna hættu á töku­stað.

„Þetta er mar­tröð og Hollywood státar sig af því að það eru 28 ár frá því að eitt­hvað svona slys hefur komið fyrir,“ segir Dröfn spurð að því hvernig svona komi fyrir.

Hún segir að staðan sé slæm fyrir vopna­sér­fræðinginn en að á­byrgðin liggi ekki einungis hjá henni því að að­stoðar­leik­stjóri beri á­byrgð á þessu og að það hafi ekki verið allt með felldu á töku­stað.

Finnur til með Baldwin

Dröfn segir að hún finni skelfi­lega til með Alex Baldwin.

„Hann mætti í vinnuna og drap mann­eskju,“ segir Dröfn og segir ekki sjá fyrir hvernig þetta endar og hvort að myndin verði yfir­höfuð kláruð.

Þá ræddu þær ó­stað­festar sögu­sagnir um að starfs­fólk myndarinnar hafi verið að leika sér með skot­vopnin utan taka og að þess vegna hafi byssan verið „heit“ en ekki „köld“.

Hægt er að horfa á við­talið við Dröfn í þættinum hér að neðan.