Það var löngu tímabært að gefa út bók um þennan mikilvæga mann í okkar sögu enda lengi verið skortur á aðgengilegum upplýsingum um hann. Þetta er yfirlitsbók svo henni er ætlað að gefa einhverja heildarmynd af hans mikla ferli sem verður að segjast að er alveg ótrúlegur,“ segir Pétur aðspurður um þessa rúmlega 400 síðna bók sem hann hefur unnið að í mörg ár.

Hann segir að þó bókin sé umfangsmikil hafi frekar verið reynt að þjappa henni saman enda hafi það verið hugsun hans og útgefandans, Hins íslenska bókmenntafélags, að sem flestir gætu eignast hana.

Guðjón Samúelsson húsameistari ríkins frá 1920 til 1950.

„Við vildum ekki hafa hana of stóra eða dýra en þó þannig að hún væri eigulegur hönnunargripur. Það er ekki síst ríkulegt myndefnið sem gefur henni gildi.“

Í bókinni eru ljósmyndir Guðmundar Ingólfssonar sem flestar hafa aldrei birst áður auk fjölda teikninga af helstu verkefnum Guðjóns.

Austurstræti 16, stórhýsi Nathan & Olsen, síðar þekkt sem Reykjavíkur apótek og nú Apótek hótel. Mynd/Ímynd

„Hann var listamaður í teikningum og teiknaði framan af flest með eigin hendi en þegar leið á ævina varð hann var fremur listrænn stjórnandi en að hann hafi dregið hverja einustu línu.“

Vinnustofan í íbúð Guðjóns á Skólavörðustíg


Guðjón sem lærði við arkitektaskóla Listaakademíu Kaupmannahafnar var ráðinn árið 1920 í glænýtt embætti húsameistara ríkisins. Hann hafði þá umsjón með öllum byggingarframkvæmdum sem ríkið kostaði og þar með talið að hanna flestallar opinbera byggingar landsins.

Héraðsskólinn á Laugarvatni var fullbúinn árið 1930 og þá stærsti sveitaskóli landsins. Mynd/Ímynd

„Hann var aðeins með nokkra starfsmenn en það var ótrúlegt hverju þessi litli hópur náði að afkasta miðað við þá miklu vinnu sem fer í að teikna byggingar í dag. Í upphafi hafði hann einn aðstoðarmann og þeir unnu saman í einu herbergi í íbúð hans á Skólavörðustígnum og þannig var það alveg fram til 1930. Inni í þessu litla rými voru teiknaðar stórbyggingar á við Landsspítalann, Þjóðleikhúsið og Sundhöllina.“


Flóknar á nútímamælikvarða


„Byggingarnar sem hann var að hanna á við þessar þrjár voru tæknilega mjög flóknar, jafnvel á nútíma mælikvarða en í landinu var þessi sérþekking ekki til. Guðjón þurfti því oft að fara í utanlandsferðir í tengslum við flóknustu verkefnin enda var til að mynda engin hér sem vissi hvernig að hanna ætti og byggja leikhús.“

Hallgrímskirkja, eitt helsta kennileiti borgarinnar var umdeild. Mynd/Ímynd

Guðjón var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka háskólaprófi í byggingarlist og kynnti til sögunnar nútímaleg vinnubrögð í því að hanna byggingar og gera verkáætlanir og útboðsgögn. Þess á ofan kynnti hann fyrstur manna borgarskipulagsfræði til sögunnar og var þannig brautryðjandi á mörgum sviðum að sögn Péturs.

„Árin frá 1925 til 1930 voru mikill annatími hjá Guðjóni þar sem hann á sama tíma var að klára Landspítalann og leggja drög að Þjóðleikhúsinu og Sundhöll Reykjavíkur. Með stuttum fyrirvara fékk hann svo það verkefni að hanna nútímalegt hótel í miðbænum, Hótel Borg. Hann þurfti því að fara erlendis að kynna sér nýjustu strauma í hönnun og búnaði hótela. Mest ferðaðist hann til Norðurlandanna en einnig til Þýskalands og mið-Evrópu.“


Tónlistarunnandi sem ferðaðist mikið


Pétur viðurkennir að hann skilji varla hvernig einn maður hafi komist yfir allt það sem Guðjón gerði á sinni starfsævi.

„En hann lifði fyrir þetta starf. Hann var ekki fjölskyldumaður en elskaði vinnuna og þurfti svo sannarlega á því að halda. Hann lifði áhugaverðu lífi, ferðaðist til að mynda meira en flestir af hans kynslóð en ekkert af þeim minningum var skráð í dagbókum eða bréfum. Hann var mikill tónlistarunnanndi og spilaði sjálfur á hljóðfæri og fékk þannig sína hvíld frá teikniborðinu.“

Þjóðleikhúsið er eitt meistaraverka Guðjóns en hann barðist fyrir lífi sínu á lokametrum byggingarinnar og lést nokkrum dögum eftir vígsluhátíðina. Mynd/Ímynd

Guðjón gekk í hjónaband sem varð skammvinnt og eignaðist hann enga afkomendur.

„Hann átti heldur ekki systkini sem lifðu svo það eru í raun afkomendur systkina foreldra hans sem eru hans nánustu ættmenni.“

Eins og heyra má tileinkaði Guðjón líf sitt starfinu og gekk það með tímanum nærri heilsu hans.


Ofgerði sér fyrir Alþingishátíðina


„Mér sýnist á öllu að í mikilli vinnulotu í aðdraganda Alþingishátíðarinnar árið 1930 hafi hann ofgert sér. Árið eftir Alþingishátíðina var hann meira og minna frá vinnu vegna veikinda og dvaldist á heilsuhælum erlendis. Eftir þetta fór hann svo nánast á hverju ári í hvíldarferðir til útlanda.“

Fyrir Alþingishátíðina árið 1930 var reistur nýr burstabær á Þingvöllum. Mynd/Ímynd

Guðjón greindist undir lok ævinnar með Parkisons veiki og átti erfitt með að teikna og skrifa en það var krabbamein sem dró hann til dauða árið 1950, þá tæplega 63 ára gamlan.

„Hann var í raun að berjast fyrir lífi sínu þegar hann var að klára Þjóðleikhúsið. Hann vissi í hvað stefndi en gaf sína seinstu krafta í þessa byggingu. Hann var þar dag hvern síðustu misserin þar sem hann vann náið með iðnaðarmönnum. Þegar svo kom að vígslu leikhússins var hann orðinn svo veikur að hann gat ekki verið viðstaddur hátíðina. Sagan segir að hann hafi heyrt enduróm vígslunnar í útvarpinu þar sem hann lá helsjúkur á Landspítalanum, þar sem hann lést nokkrum dögum síðar. Hann náði þó að klára þessa byggingu sem er eitt af hans meistaraverkum.“


Varð bitbein í flokkapólítík


Þó að í dag séu flestir sammála um að byggingar Guðjóns séu mikil prýði í borginni sem landsbyggð var hann þó gagnrýndur á árum áður.

Bygging Sundhallarinnar stöðvaðist um nokkurra ára skeið vegna deilna á milli bæjarstjórnar og Alþingis. Var gagnrýni á bygginguna og hönnuð hennar óvægin en hljóðnaði fljótt eftir að dyr hennar opnuðust. Mynd/Ímynd

„Í byrjun þegar hann var eini starfandi arkitekt landsins var hann ekki mjög umdeildur en varð pólítískt bitbein þegar Jónas frá Hriflu varð ráðherra árið 1927 en þeir störfuðu náið saman. Jónas var mjög umdeildur stjórnmálamaður og það má segja að andstæðingar hans í stjórnmálum hafi fundið sér ákveðið skotmark í Guðjóni Samúelssyni. Það var auðvelt að gagnrýna það sem miður fór í byggingum hans. Sem listamaður galt hann fyrir það að verk hans urðu bitbein í flokkapólitík,“ útskýrir Pétur.

Kristskírkja á Landakoti frá árinu 1928. Þar tókst Guðjóni vel að tengja gotnesk stílbrigði við íslenska byggingarhefð og náttúru. Mynd/Ímynd

Í kringum 1930 kemur fúnksjónalisminn til sögunnar með breyttum viðhorfum í arkitektúr. „Ungir arkitektar koma þá til landsins og það óx þeim í augum að þessi maður sem þeim fannst orðinn frekar íhaldssamur sæti að öllum opinberum verkum ríkisins.“

„Það er sagt að tíminn sé eini marktæki gagnrýnandi byggingarlistar og skipulags og tíminn hefur unnið með Guðjóni Samúelssyni,“ segir Pétur.


Talaði alltaf fyrir fegurðinni


„Eftir að hann lést árið 1950 var hann í litlum metum. Deilurnar um Hallgrímskirkju voru þá háværar og yngri kynslóð arkitekta þótti hann gamaldags. Það var ekkert talað um hann og hann í raun grafinn og gleymdur. En með tímanum hafa byggingar hans sannað sig og margar þeirra eru í dag mikilvæg tákn fyrir staði og stofnanir í íslensku samfélagi. Háskóli Íslands, Akureyrarkirkja, Þingvallabærinn, Þjóðleikhúsið og Hallgrímskirkja, þessar byggingar eru í dag nánast eins og þjóðþekkt náttúrufyrirbæri, þær eru órofa hluti af íslenskri menningu og umhverfi.

Hönnun Landsspítalans var umfangsmesta verkefni Guðjóns á fyrstu starfsárum hans í embætti. Hér sést upphaflegur inngangur spítalans. Mynd/Ímynd

Arkitektúr Guðjóns er í grunninn tímalaus og klassískur. Klassísk byggingalist snerist mikið um fagurfræði og Guðjón talaði alltaf fyrir fegurðunni. Hann sá fyrir sér að borgin ætti að vera heilsteypt listaverk og byggingarnar ættu að vinna saman að því að skapa fallegt og mannbætandi umhverfi. Þetta var hans stóra hugsjón og fyrir þetta lifði hann.“

Gamla sjúkrahúsið á Ísafirði er en best varðveittasta opinbera bygging Guðjóns Samúelssonar frá fyrstu starfsárum hans. Mynd/Ímynd