Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ráðuneytið hafi rætt snemma árið 2019 að tilefna konu í stöðu ritstjóra norræna fræðiritsins NEPR fyrir hönd Íslands. Meginástæðan fyrir því að þeim hafi ekki litist á tilnefningu Þorvaldar Gylfasonar hagfræðings vera sú að hann hefði ekki reynslu í stefnumótun stjórnvalda og væri ekki ung kona.

Ekki hafi nein ríkisstjórn leitað til Þorvaldar að aðkomu stefnumótunar og hafi Þorvaldi verið boðið starfið í umboðsleysi að mati Bjarna. „Hann er ekki kona eins og menn hafa tekið eftir,“ sagði þá Bjarni um Þorvald.

Andrés Ingi Jónsson, óháður þingmaður og nefndarmaður, benti á að ekkert væri minnst á konu í tölvupóstinum sem starfsmaður ráðuneytis sendi stýrihóp fjármálaráðuneyta Norðurlandanna.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá var það Friðrik Már Baldurs­son, hag­fræði­prófessor við HR, sem starfs­maður fjár­mála­ráðu­neytisins mælti með í starf rit­stjóra Nor­dic Economic Poili­cy Revi­ew í stað Þor­valdar.

Ekki í tímaþröng

Sænski hagfræðiprófessorinn Lars Calmfors og fráfarandi ritstjóri sagði í samtali við Kjarnann að stýrihópurinn hafi verið kominn í tímaþröng með að finna nýjan ritstjóra þegar Þorvaldi var boðið starfið.

Aðspurður hvort pressa hafi verið komin á Ísland til að ganga frá tilnefningum segir Bjarni svo ekki hafa verið. Óformlega hafi röðin verið komin að Íslandi en ekkert prinsippmál hafi verið af hálfu Íslands að finna ritstjóra. Rætt hafi verið munnlega innan ráðuneytisins um að tilnefna konu sem væri með reynslu í stefnumótun stjórnvalda.

Ráðherra sagði að kunningsskapur Þorvaldar og Lars Calmfors, fráfarandi ritstjóra NEPR, hafi ráðið för í tilnefningu Þorvaldar sem ritstjóra fræðiritsins.

Frumhlaup starfsmann stýrinefndarinnar

Þorvaldi var boðið starf ritstjóra í gegnum tölvupóst og taldi boðið bindandi en Bjarni segir það hafa frumhlaup starfsmann stýrinefndarinnar. Eftir að Þorvaldi var tjáð að hann fengi ekki starfið óskaði hann eftir að fá aðgang að tölvupóstsamskiptum ráðuneytisins við tímaritið og fékk hann þau gögn afhent eftir úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þar kom fram að starfsmaður ráðuneytisins hafi sagt finnskum sér­fræð­ingi í stýri­hópi vegna útgáfu fræða­tíma­rits­ins að Þorvaldur væri formaður stjórn­mála­flokks.

Bjarni lagði áherslu á að þetta hafi verið eftir því sem best væri vitað og að þetta hafi verið leiðrétt áður en Þorvaldi var greint frá því að hann fengi ekki starfið. Fjármálaráðuneytið hafi staðfest að Þorvaldur hafi eitt sinn leitt flokk en ekki lengur.