„Ég tók áfanga í félagsfræði í menntaskóla og varð sjúklega skotin í henni þar. Svo segir það sig kannski pínu sjálft, að þegar maður hefur einhverja ákveðna reynslu, þá hefur maður áhuga á að skoða hlutina nánar,“ segir Elsa Dögg Lárusdóttir, 25 ára félagsfræðinemi í Háskóla Íslands.

Reynslan sem Elsa vísar í er ofbeldissamband sem hún var í sem unglingur. Strákurinn sem hún var með, var með henni í grunnskóla. Þau byrjuðu saman í 8. bekk og voru saman þar til þau voru sextán ára. 

Ætlaði aldrei í þetta samband

„Þetta var rosalega ráðandi einstaklingur. Ég ætlaði ekkert að vera með honum í sambandi til að byrja með. Ég var mjög sjálfsörugg og ætlaði alls ekki að láta valta yfir mig. En hann var mjög ágengur og það bara virkaði. Þetta þróaðist svo bara hægt og rólega. Ég kem sjálf frá frekar erfiðum heimilisaðstæðum og var mikið að leitast eftir því að vera annars staðar en heima hjá mér. Þannig það var fínt að geta farið til hans. En svona eftir á, var það auðvitað ekkert svo fínt.“

Elsa er hugsi yfir því að þau hafi í raun enst svo lengi saman, því hann var ávallt með hugann við aðrar stelpur. „Manni fannst það eðlilegt á þessum aldri. Að það væri drama í svona sambandi. Ég kenndi drykkju alltaf um það. Mér fannst bara eðlilegt þegar við vorum á djamminu, eða þegar hann væri með vinum sínum, að hann væri að daðra við aðrar stelpur.“

Þegar þau voru búin að vera saman í þrjú ár, komst Elsa að því að, ekki var aðeins um daður að ræða, heldur hafði hann ítrekað haldið fram hjá henni. „Þá hættum við saman í einhverja stund. En það leið ekki á löngu þar til ég tók hann aftur. Hann auðvitað lofaði öllu fögru og vissi alveg upp á hár hvernig hann ætti að fá mig aftur.“

Fullkomið niðurbrot sem opnaði fyrir ofbeldi

Elsa segist á þessum tímapunkti hafa verið orðin fullkomlega niðurbrotin og ekki áttað sig á því fyrr en mörgum árum síðar, hvernig hann braut hana markvisst niður með ýmsum leiðum. Hann sagði henni ítrekað að hún væri ekki nægilega góð kærasta. Hann vildi að hún klæddi sig eða hagaði sér eins og honum hentaði.

„Hann stjórnaði því hvernig ég klæddi mig, málaði mig eða kom fram við aðra. Það gat svo breyst á svipstundu. Eina stundina vildi hann sýna mig eins og sýningargrip, því hann átti svo sæta kærustu. Hina stundina var hann brjálaður því ég var í bol sem var allt of fleginn. Þannig stjórnaði hann mér.“

Elsa segir vini hennar hafa reynt að vara hana við honum, en þá hafi hún verið orðin svo háð honum að hún hafi ekkert mark tekið á þeim. „Mín viðbrögð við þessu voru auðvitað bara að dömpa vinkonum mínum, sem mér fannst ekki vera að styðja mig nægilega, í mínu sambandi. Eftir það fór ég að fjarlægjast alla rosalega mikið.“

Hún segir hann ekki endilega hafa beðið hana að hætta að tala við vinkonur sínar, en hann hafði sterkar skoðanir á því hvern hún talaði við og hvern ekki.  „Það var svona bæði og. Hann var mikið að sannfæra mig um að vinkonur mínar sem stóðu upp fyrir mér væru bara alls ekki góðar vinkonur. Hann vildi ekkert að ég væri mikið að tala við þær. Ég gleypti þetta allt algerlega og var þá komin á þann punkt að það eina sem ég átti eftir, var hann.“

Þegar að þessu er komin þá útskýrir Elsa að hans álit, hans skoðun og hans samþykki á hennar tilveru, hafi verið það eina sem hún þráði.

 „Þegar svo er komið fyrir manni, þá er maður í raun reiðubúinn til að gera hvað sem er fyrir þetta samþykki. Þar kemur inn í kynferðisofbeldið.“

Allt gert fyrir samþykki og til að sanna sig

Allt sem hann vildi, það gerði hún. Alveg óháð því hvort hún vildi það eða ekki. Elsa segir að hún hafi í raun ekki gert sér grein fyrir því að um ofbeldi hafi verið að ræða, fyrr en mörgum árum síðar. Löngu eftir að sambandinu lauk.

„Það er ekkert eðlilegt að gráta í kynlífi. Það er ekkert eðlilegt að vera illt og reyna að gera gott úr því. Það er ekkert eðlilegt að gera hluti sem þú ert ekkert í stuði fyrir.“

Elsa heldur áfram og lýsir því hvernig hann hafi að lokum kennt henni hvernig fór fyrir sambandinu.

 „Hann kennir minni hegðun alltaf um að sambandinu lauk. Því ég var orðin alveg snar. Ég var svo hrædd um að hann myndi halda fram hjá mér.  Ég skoðaði símann hans, Facebook síðuna hans og tölvuna. Ég spurði hann stanslaust hvar hann væri."

Elsa segist hafa fengið ákveðin stimpil á sig eftir sambandið, vegna hegðunar sinnar. 

„En það auðvitað talar enginn um það hvernig hann var. Það sem gerðist á þessu tímabili er bara týpísk hegðun í óheilbrigðu sambandi. Það hef ég lært á Stígamótum. Eins og ofsóknarhegðun, vantraust og afbrýðisemi. Sem er auðvitað mjög óheilbrigð hegðun gagnvart einhverjum sem þú átt að treysta.“

Jákvæðar fyrirmyndir mikilvægar

Talið berst að fjölskyldu hennar og hvort þau hafi tekið eftir eða vitað af því hversu slæmt ástandið var „Mamma vissi að við hefðum hætt saman, en ég sagði henni bara að hann hefði verið að halda fram hjá. Eftir það var hún svolítið í því að hella sér yfir hann, þegar hún hitti hann, án þess þó í raun að vita alla söguna. Hún vildi auðvitað bara standa upp fyrir mér. Hún kannski vissi ekki hvað annað hún gat gert.“

Elsa segir mömmu sína kannski ekki hafa haft forsendur til að bregðast öðruvísi við, vegna sambands hennar við pabba hennar. Foreldrar hennar skildu þegar hún var nítján ára, en þar til að því kom, var sambandið ekki gott. 

„Það er eitthvað sem við systur höfðum beðið lengi eftir og var best fyrir alla í lokin. Pabbi var alki og við lifðum í ákveðinni rútínu í kringum það með tilheyrandi meðvirkni og öllu sem því fylgir. Fyrst kom edrúmennskan, svo byggðist drykkjan upp smátt og smátt, allir léku með og reyndu að hylma yfir það. Á meðan vonuðum við það besta, þar til þetta varð allt of mikið. Þá kom sprengjan. Hótun um skilnað og svo framvegis. Pabbi baðst svo bara afsökunar og þá byrjaði næsti hringur.Þetta var bara endalaus vítahringur, þar til þau loksins skildu.“

Í dag segir Elsa foreldra sína vera á betri stað og pabba hennar vera edrú. Hún segir þeim báðum ganga miklu betur eftir skilnaðinn. 

Elsa víkur að því hversu mikilvægt það er að hafa jákvæðar sambandsfyrirmyndir og hversu algengt það er að upphefja óheilbrigða hegðun. „Þetta var það sem ég hafði sem viðmið og vissi um sambönd. Að það væri eðlilegt að stundum væri allt í háalofti, að sambönd væru erfið. Það væri eðlilegt að byrja saman og hætta saman til skiptis“

Hún segir þessar steríótýpur reglulega koma fram í bæði tónlist og sjónvarpsþáttum, sem hafi að sjálfsögðu líka áhrif á þeirra viðmið og skoðanir til sambanda. „Þetta er svona Taylor Swift dæmi, hún er alltaf að tala um alla stormana.  Allt fer í rugl, hún rís upp aftur og allir vilja hana. Þetta er svona brenglað  „I‘m a heartbreaker“ dæmi sem þykir flott. Svo sér maður þetta auðvitað líka í sjónvarpsþáttum. Þar sofa allir hjá öllum, en eru samt svo góðir vinir.“

Mikil þörf á kynlífsfræðslu – ekki bara kynfræðslu

Elsa segir að hún hefði viljað miklu betri og víðtækari fræðslu sem barn og unglingur. Bæði frá skólanum, en einnig frá foreldrum sínum. „Mamma reyndi alveg, eftir bestu getu, að tala við mig um kynlíf. Hún fór með mig til læknis til að fá pilluna þegar við byrjuðum saman. En læknirinn vildi ekki setja mig á hana, því honum fannst ég of ung. En auðvitað byrjaði ég samt að stunda kynlíf. Þegar ég hugsa um þessi viðbrögð læknisins í dag, finnst mér þau mjög skrítin.“

Hún segir það mikið vanta að fólk sé ekki í afneitun með slíka hluti. Krakkar muni byrja að stunda kynlíf, burtséð frá því hvort fullorðnir vilji það eða ekki. Þau muni alltaf finna leiðir til þess þegar þau eru orðin forvitin um það. Hún segir kynfræðsluna sem hún hafi fengið í skólanum hafa verið of hefðbundna og aðeins fjallað um æxlunarfærin og kynsjúkdóma. Hún hefði viljað vita miklu meira.  

„Maður er auðvitað alveg farinn að hugsa um kynlíf tólf, þrettán ára. Það væri mjög gott ef það væri settur einhver grunnur í 7. bekk. Svo væri bara grimm kyn- og kynlífsfræðsla í unglingadeildinni.

„Ég hefði viljað vita hvernig gott og heilbrigt kynlíf er. Ég hefði viljað vita að ég má segja nei. Það var ekkert talað um það. Ég hefði viljað vita að kynlíf er ekki eitthvað sem ég átti að vera að gera fyrir hann. Út af því að hann myndi leita annað, ef ég gerði ekki allt sem hann bað um. Það er ekkert verið að tala um virðingu, mörk og samþykki við mann, á þessum aldri. Það þarf að fræða stelpur um að þær eiga að njóta kynlífs. Ég vil að þær læri líka um líkamann sinn. Læri muninn á legganga- og snípsfullnægingu. Það þarf að ræða samþykki og virðingu, samhliða þessu öllu. Svo er gott að muna að það er í lagi að stoppa í miðjum klíðum. Það á ekki að vera neitt mál.“

Hún segir klám hafa verið mikinn áhrifavald í þeirra sambandi, og telur það ekki einsdæmi. „Það eina sem unglingar hafa er klámið. Oftar en ekki, er það bara hrein og bein misnotkun í beinni. Þar sjást konur þjást, en á sama tíma reyna þær að stynja upp úr sársaukanum og hundsa hann. Það er því kannski ekkert skrítið að mínum fyrrverandi hafi ekki fundist óeðlilegt að mér liði illa í okkar kynlífi. Það er bara það sem hann sá í kláminu og þekkti.“

Ólíklegt að hann geri sér sjálfur grein fyrir ofbeldinu

Elsa telur ólíklegt að hann hafi gert sér grein fyrir því hversu mikið hún hafi þjáðst „Ég held að hann geri sér eflaust ekki sér grein fyrir því hversu illa mér leið. Hversu slæmt ég hafði það eftir þetta samband. Hann myndi eflaust aldrei viðurkenna það.“

Elsa segir að ofbeldið sem hann beitti hana hafi að mestu leyti verið andlegt og kynferðislegt. Þó hafi komið upp atvik eftir að þau hættu saman, þar sem hann hafi verið ógnandi og mjög reiður.

„Þegar hann komst að því að ég væri að hitta annan strák, trompaðist hann. Sem var svo skrítið, því hann auðvitað lauk sambandinu. Var orðinn leiður á mér. En þarna var hann að reyna að fá mig aftur, því hann var orðinn þreyttur á því að taka ókunnugar stelpur með sér heim. Hann hefur haft samband nokkrum sinnum eftir það. Reynt að bjóða mér á deit og svoleiðis. En ég sagði bara „nei, þú ert það versta sem hefur komið fyrir mig“, orðrétt.“

Fræðsla mikilvæg innan skólans og innan heimilanna

Talið berst að fræðslu í skólum og að átaki eins og „Fáðu já“ sem frumsýnt var árið 2013. „Maður einhvern veginn tengdi ekki við svona herferðir. Hélt þetta væri meira fyrir þá sem væru að deita, eða á djamminu. Þá ættirðu að passa fá já. Ég hélt það bara gefið ef þú ert í sambandi. Hann var kærastinn minn, þannig við bara áttum að stunda kynlíf. Þegar hann vildi. Því átti svo að ljúka þegar hann vildi. Hann var alveg með yfirhöndina í því öllu.“

Elsa segist mikið hafa hugsað um fræðslu, bæði innan skólans, og á heimilum. „Það getur verið mikil afneitun í gangi hjá foreldrum um neikvæða hegðun. Áhyggjurnar snúast yfirleitt að því að barnið fari að stunda kynlíf. Eða að það sé ráðist á barnið. Þær snúast sjaldnast um það hvernig barnið hagar sér í sambandi eða kemur fram við aðra. Það þurfa allir að vera með í þessari fræðslu, ekki bara skólinn. Foreldrar þurfa að vera virkir þátttakendur. Þú getur ekki ætlast til þess að einhver annar kenni barninu þínu allt sem þér finnst óþægilegt.“

Elsa telur að þetta gæti mögulega verið kynslóðatengt. Umræða um ofbeldi í samböndum er frekar nýleg „Kannski finnst eldra fólki svona hegðun eðlileg í sambandi. Lengi var auðvitað engin nauðgun í hjónabandi. Það er í raun bara að breytast núna, eða nýlega.“

Hún segir mikilvægt að talað sé um margar birtingarmyndir ofbeldissambanda, sérstaklega andlegt ofbeldi. „Hann þarf ekki að lemja þig til að vera vondur. Það gleymist oft að tala um það. Þú getur verið í rosalega slæmu sambandi, en þú ert aldrei með marblett“

Afleiðingar ofbeldisins margvíslegar

Eftir að þau hættu saman var Elsa fyrst um sinn mjög þunglynd og lokaði sig af. En smám saman byrjaði hún að fara meira út og hitta fólk. „Ég þurfti alltaf að fá rosalega mikla kynferðislega viðurkenningu. Ég fór frá þunglyndinu, beint í það að vera stanslaust á djamminu. Alltaf með einhvern í takinu og daðra við hinn og þennan.“

Hún segir það hafa verið ákveðna vakningu þegar hún fór að hitta strák í fyrsta skipti, eftir að sambandinu lauk „Hann var svo næs. Þá fattaði ég að það er kannski ekki eðlilegt að maður sé stanslaust gagnrýndur. Hvernig maður er klæddur eða hvernig maður hagar sér. Að kannski væri bara í lagi að vera ég sjálf.“

Elsa fór ekki í annað samband fyrr en nokkrum árum síðar. „Í marga mánuði, eftir að við kynntumst, hélt ég mikilli fjarlægð. Það var alltaf einhver ímynd sem ég vildi halda.  Að vera köld og segja við hann að þetta væri bara líkamlegt. Segja við hann að ég vildi ekkert með hann hafa. Sem var síðan auðvitað bara haugalygi. Ég var þvílíkt skotin í honum.“

Hún segir að þegar þau hafi svo loks byrjað saman, hafi ekki liðið á löngu, þar til hún hafi farið að sýna aftur sömu óheilbrigðu hegðunina og hún hafði lært í fyrra sambandi. „Ég þurfti stanslaust að vita hvar hann var og hvað hann var að gera.“ Hún segist hafa verið mjög afbrýðisöm og hafi reynt að halda sambandinu stanslaust í stormi og lægðum. Þau hafi verið í vítahring og hann hafi á endanum sagt stopp. „Þá áttaði ég mig á því að ég kannski vissi ekkert hvað heilbrigt samband er. Ég veit ekki hvað heilbrigt kynlíf er. Ég var bara að upplifa í fyrsta skipti að vera með manni sem þótti raunverulega vænt um mig.“

Erfitt að viðurkenna að manni hafi verið nauðgað – en ekki bara verið í slæmu sambandi

Árið 2015 gerði Elsa sér grein fyrir því að hún þyrfti að leita sér aðstoðar. Bæði vegna þess að hún var farin að hegða sér aftur á mjög óheilbrigðan hátt í sínu sambandi. En einnig vegna mikil umróts í samfélaginu vegna herferða eins og #konurtala og #freethenipple.

„Þá kom þetta svo sterkt til baka. Ég var svo sem búin að átta mig á því að þetta samband hefði verið óheilbrigt og hafði svona hugsað um það on og off í gegnum árin. Ég alltaf glímt við þunglyndi og lítið sjálfsálit og var alltaf meira og meira meðvituð um að ég þyrfti að lokum að fara að vinna í þessu.“

Elsa segir að hún hafi að lokum verið hætt að sofa heila nótt og hafi fengið martraðir allar nætur. Á endanum hafi hún gefist upp og pantað sér einstaklingsviðtal hjá Stígamótum.

 „Mér fannst einstaklingsviðtölin ekki hjálpa mér mjög mikið. Ég fór nokkrum sinnum og taldi eftir nokkur viðtöl að ég væri bara búin. Að ég væri orðin góð. Ráðgjafinn minn hvatti mig til að kíkja í hópvinnu. Hún sagði að þar gæti ég kafað dýpra í þetta og mögulega náð góðum tengslum við hinar stelpurnar. Ég var alveg á báðum áttum með það en endaði á því að fara. Eftir fyrsta fundinn fattaði ég að ég var bara rétt að byrja í minni meðferð.“

Elsa segir hópvinnuna hafa hjálpað sér mjög mikið. Þar hafi hún hitt fjórar aðrar konur, sem voru með gjörólíkar sögur en allar með sömu tilfinningarnar. Í hópnum lærði hún að bera kennsl á þessar tilfinningar „Þær fá allt í einu nafn. Með því að segja það upphátt getur maður viðurkennt hvað þetta er. Það er erfitt að segja upphátt „mér var nauðgað“ en ekki, „ég var í sambandi, og það gekk illa“. Maður vill auðvitað ekkert líta á þetta þannig.“

Hvað er heilbrigt samband?

Elsa hefur í dag verið með sama stráknum í mörg ár sem hefur verið hennar stoð og stytta í gegnum hennar bataferli.„Ég er búin að fara á Stígamót í hópvinnu, á Kvíðameðferðarstöðina til sálfræðings og er að fara aftur í hóp núna á Stígamótum. Hann hefur stutt mig í gegnum þetta allt og vill bara að ég finni minn eigin kraft.“

Hún segir að þau séu dugleg að ræða saman um sambandið og sérstaklega ræði þau mikið kynlífið. „Hilmar er mjög meðvitaður um að vera viss um að ég sé til. Fólk kannski heldur að slík umræða sé turn-off, en þvert á móti, þá er það bara turn on. Það er svo gott að hafa frelsi til að tjá sig. Það er alveg klárlega eitthvað sem vantaði í mitt fyrra samband.“

Hún segir sambandið hafa verið á hálum ís þegar hún byrjaði sína meðferð og hún hafi að miklu leyti þurft rými til að takast á við vandamálin ein. „Ég var mjög fjarlæg og þurfti mitt rými til að takast á við þetta. Á meðan vildi ég lítið með hann hafa. En sem betur fer breyttist það hægt og rólega og að þessu loknu tók við mikið blómsturtímabil fyrir okkur. Sem hefur ekkert hætt síðan.“

Elsa talar svo að lokum um það hvað, fyrir henni, og eftir meðferð í Stígamótum, heilbrigt samband er. „Heilbrigt samband fyrir mér í dag er að geta lifað sameiginlegu og sitthvoru lífi. Það ríki alltaf traust. Hafa ekki áhyggjur af saklausu daðri. Að geta treyst því að hann sé með mörk, sem hann fer ekki yfir. Að geta talað um kynlífið. Ekki bara á meðan því stendur. Að bera virðingu fyrir því að þótt við séum saman, þá erum við tveir einstaklingar, og eigum líf og vini utan okkar sambands. Að setja okkur markmið sjálf, og saman.“

Sjúk ást

Sjúk ást er titill átaks sem Stígamót standa fyrir og nær hápunkti á Valentínusardaginn, 14. febrúar. Átakinu er ætlað að vekja athygli á einkennum heilbrigðra, óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda meðal ungmenna. Markmið þess er að koma í veg fyrir ofbeldi með fræðslu um helstu einkenni slíkra sambanda. Sérstaklega er sjónum beint að því að allir setji sér mörk, virði hvort annað og standi með sjálfum sér. Sérstök heimasíða var opnuð í dag www.sjukast.is. Þar er hægt að nálgast ýmsar upplýsingar um slík sambönd og átakið sjálft.

Blaðamannafundur verður klukkan 11.30 í stofu M19 í Kvennaskólanum í Reykjavík þar sem Stígamót mun kynna átakið.