Myndir af illa förnum hræjum af mávum sem komið hefur verið fyrir í kringum húsið Skálará við Vatnsveituveg í Elliðaárdal hafa vakið talsverðan usla á Facebook-síðu Íbúasamtaka Betra Breiðholts. Myndunum var deilt inn á síðuna fyrir rúmum sólarhring og er greinilegt að sitt sýnist hverjum. Hafa um eitt hundrað athugasemdir birst og þar er aðkomunni líkt við hryllingsmynd. Þá kemur fram að ábendingum hefur verið komið áleiðis til lögreglu.

Mörg miður falleg orð eru látin falla um einstaklinginn í umræddu húsi sem kom hræjunum fyrir. Leggur einn meðlimur síðunnar meðal annars til að manninum verði „sálgað“.

bær hús  elliðárdalur fuglar fuglshræ 12.jpg

Aðili sem þekkir til á svæðinu segir að hræjunum hafi verið komið þarna fyrir í nokkur ár og því skilji hann ekki þetta skyndilega uppþot. „Mér skilst að þessir fuglar séu sjálfdauðir. Sá sem býr þarna hefur komið þeim fyrir til þess að fæla í burtu aðra máva. Þetta er kannski ekki geðslegt en þetta heldur varginum í burtu og er líklega búið að bjarga ófáum andar- og kanínuunganum,“ segir viðkomandi.

bær hús  elliðárdalur fuglar fuglshræ 03.jpg

Nokkrar fréttir hafa verið birst undanfarin ár um íbúa að Skálará og þá aðallega vegna umhyggju þeirra fyrir dýralífi í dalnum, aðallega kanínum. Ekki er algilt að sama umhyggja sé til staðar fyrir manneskjum sem gera sér ferð um dalinn því einhverjar fréttir hafa birst að árekstrum milli íbúa og gesta. Það er greinilegt á athugasemdum inni á Facebook-síðunni að margir segja farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við íbúa að Skálará.

bær hús  elliðárdalur fuglar fuglshræ 08.jpg

Rétt er að geta þess að umræddur íbúi sem ber ábyrgð á hræjunum vildi ekki ræða málið við Fréttablaðið.

Þá hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki enn brugðist við fyrirspurn blaðsins.