Hundruð stjórnarandstæðinga Lúkasjenkós, forseta Hvíta-Rússlands, hafa verið handteknir frá því að hann var settur í embætti í fyrradag. Embættistakan fór leynilega fram en eftir að tíðindi af henni spurðust út söfnuðust þúsundir saman í Minsk til að mótmæla.

Reynt var að kveða mótmælin niður en fjöldi lögreglumanna auk herliðs beitti meðal annars vatnsþrýstibyssum í aðgerðum sínum. Hátt á fjórða hundrað manns voru handteknir.

Leiðtogar Evrópusambandsins sendu frá sér yfirlýsingu í gær þess efnis að sambandið viðurkenndi ekki Lúkasjenkó sem rétt kjörinn forseta Hvíta-Rússlands. Úrslitin hefðu verið fölsuð og kosningarnar hvorki frjálsar né lýðræðislegar.