Sindri Þór Stefánsson, fanginn sem strauk af Sogni í síðustu viku, var í dag handtekinn í Amsterdam í Hollandi. Vísir greinir frá og hefur það eftir Rob van der Veen, talsmanni lögreglunnar í borginni.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfestir að Sindri hafi verið handtekinn í samtali við Fréttablaðið en vildi ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Munu hafa samband við íslensk yfirvöld

Í frétt Vísis er haft eftir van der Veen að Sindri Þór muni verða sendur til saksóknaraembættisins í Amsterdam og að samband verði haft við yfirvöld á Íslandi í kjölfarið. Alþjóðleg handtökuskipun hafði verið gefin út á hendur Sindra.

Sindri flúði fangelsið að Sogni aðfaranótt þriðjudags og tókst að yfirgefa land á fölsuðum skilríkjum. För hans var heitið á Arlanda-flugvöll í Stokkhólmi. Ekki var vitað hvert hann fór í framhaldinu fyrr en nú. Í yfirlýsingu sem hann sendi Fréttablaðinu á föstudag sagðist hann sjá eftir ýmsu og að hans væri að vænta til Íslands fljótlega.

Hann gagnrýndi yfirvöld fyrir hvernig staðið hafði verið að hans málum, en nóttina sem hann flúði fangelsið hafði gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum runnið út.

Sjá einnig: Jón Steinar: „Maðurinn er bara frjáls ferða sinna“

„Röng ákvörðun að flýja“

Var hann daginn áður leiddur fyrir dómara sem ákvað að taka sér sólarhrings umhugsunarfrest í málinu. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sagði í samtalið við Fréttablaðið að lögum samkvæmt hefði hann verið frjáls ferða sinna.

„Það er hvergi í lögum heimild fyrir því að framlengja frelsissviptingu í einhvern tíma þegar lögreglan og yfirvöld eru að böggla með sér einhveja yfirferð á málinu,“ sagði Jón Steinar.

Í yfirlýsingu sinni sagði Sindri að það hafi verið röng ákvörðun að flýja og að hann væri búinn að koma sér í samband við lögregluyfirvöld hér heima þess efnis að hann kæmi aftur til landsins.

Sjá einnig: Yfirlýsing frá Sindra: „Ég kem fljótlega“

„Ég get verið á flótta eins lengi og ég vil, ég er kominn í samband við hóp fólks sem gefur mér þak yfir höfuðið, farartæki, þess vegna fölsuð skilríki ef ég vil og peninga til að lifa. Það væri ekkert mál ef ég mundi vilja það, en ég vil heldur og ætla að takast á við þetta heima á Íslandi svo ég kem fljótlega,“ skrifaði Sindri.

Grunaður um aðild að umfangsmiklum tölvuþjófnaði

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, vísaði fullyrðingum Sindra á bug.

„Þetta er einfalt mál. Allt í þessari yfirlýsingu virðist vera rangt nema það að hann lýsir því að hann ætli að gerast lögbrjótur og ná sér í fölsuð skilríki,“ sagði Ólafur í samtali við Fréttablaðið og ítrekaði að Sindri yrði handtekinn þar sem til hans næðist.

Sindri hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í byrjun febrúar grunaður um aðild að þjófnaði í þremur gagnaverum á Reykjanesi þar sem um 600 tölvum var stolið. Andvirði þýfisins er metið á um 200 milljónir króna.

Fréttin hefur verið uppfærð.