Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hand­tók mann við Kringluna rétt fyrir klukkan fjögur nú síð­degis og færði í sótt­varnar­hús. Jóhann Karl Þóris­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn segir slíkar hand­tökur nokkuð al­gengar.

Sjónar­vottur sem Frétta­blaðið ræddi við veitti því at­hygli að lög­reglu­mennirnir voru í sótt­varnar­búning við hand­tökuna. Að sögn sjónar­vottsins var maðurinn stilltur og veitti enga mót­spyrnu.

Jóhann Karl segir lög­regluna fara að öllu með gát þegar fólk brjóti sótt­kví með þessum hætti. Að­spurður segir hann manninn lík­lega hafa átt að vera í sótt­kví frekar en ein­angrun.

Lög­regla fari nokkuð reglu­lega í slík út­köll. Jóhann gat ekki veitt frekari upp­lýsingar um hand­töku mannsins.