Rússnesk yfirvöld hafa handtekið sjónvarpskonuna Marina Ovsyannikova fyrir að hafa dreift „fölskum“ upplýsingum um rússneskar hersveitir í Úkraínu.

Ovsyannikova komst í heimsfréttirnar í mars þegar mótmælti innrás Rússa í Úkraínu í beinni útsendingu á ríkisreknum fjölmiðli. Hún sagði upp starfi sínu eftir atvikið, en hún var þá ritstjóri miðilsins.

„Stoppið stríðið, trúið ekki áróðrinum, þeir eru að ljúga að þér hérna," stóð á skilti sem hún hafði útbúið.

Marina Ovsyannikova sagði upp starfi sínu eftir mótmælin sem voru í beinni útsendingu.
Fréttablaðið/Getty

„Sakamál hefur verið hafið,“ sagði lögfræðingur Ovsyannikova. Málið er byggt á lögum sem refsa yfirlýsingum sem gagnrýna rússneska herinn, refsing getur numið allt að fimmtán ára fangelsisvist.

Ovsyannikova var ákærð fyrir að gera lítið úr hernum, þegar hún mótmælti í beinni útsendingu, og var sektuð um 30 þúsund rúblur, um 40 þúsund krónur.

Eftir að hún hætti sem ritstjóri varð hún aðgerðarsinni, gagnrýndi herinn meira og talaði opinberlega gegn átökunum í Úkraínu.

Ekki er nákvæmlega vitað hvers vegna Ovsyannikova er handtekin núna, en ekki fyrr, en hún er sögð tengjast mótmælum hennar í vikunni þar sem hún flaggaði borða með orðunum „Pútín er morðingi, hermenn hans eru fasistar.“

Sjá má myndband af mótmælum hennar í mars hér að neðan: