Mennirnir sem handteknir voru í gær voru grunaðir um ætlaðar árásir gegn borgurum og stofnunum ríkisins og undirbúning hryðjuverka. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi embættis ríkislögreglustjóra sem hófst núna kl. 15:00.

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn eru viðstaddir fundinn af hálfu lögreglu.

Um er að ræða íslenska karlmenn á þrítugsaldri. Tugir skotvopna, hálf sjálfvirk þar á meðal og þúsundir skotfæra voru haldlögð í aðgerð lögreglu.

Tveir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Annar í tvær vikur. Hinn í eina.

„Það er óhætt að segja að samfélag okkar sé öruggara en það var,“ segir Karl Steinar. Hann vildi ekki svara því hvaða stofnanir hefðu verið skotmörk mannanna, en sagði að ætla megi að Alþingi og lögregla hafi verið þar á meðal.

Svona mál aldrei komið áður upp

Karl var ekki reiðubúinn til að upplýsa hvort um þjóðernissinna hefði verið að ræða. Svona mál hafi aldrei komið á borð lögreglu áður.

„Okkur vitanlega er þetta í fyrsta skiptið sem rannsókn með þessum hætti hefur verið sett af stað,“ segir Karl. Hann segir að þjóðaröryggisráð Íslands hafi verið upplýst um stöðu mála.

„Við gripum til ákveðinna ráðstafana á meðan við vorum að ná tökum á stöðunni. Auðvitað viljum við ekki uppplýsa um það hver nákvæmlega viðbrögð lögreglu eru. Þegar mest var voru um 50 starfsmenn lögreglu sem tóku þátt í aðgerð lögreglu. Með þeim teljum við að við höfum náð utan um það sem við erum að rannsaka og teljum ekki að það sé hætta á ferðum,“ segir Karl.

Hættuástandið hafi verið það sem lögregla hafi ætlað að afstýra. Lögregla hyggst skoða hvort mennirnir séu tengdir erlendum öfgasamtökum og á í samtölum við erlend löggæsluyfirvöld.

Húsið í iðnaðarhverfi í Mosfellsbæ þar sem mennirnir framleiddu vopnin.
Fréttablaðið/Anton Brink

Útiloka ekki að fleiri tengist málinu

Beindist þetta gagnvart ákveðnum hópum eða einstaklingum?

„Ég held að við sleppum því að svara þessu í augnablikinu. við mátum það svo og metum að þarna höfum við afstýrt hættum fyrir almenning á Íslandi og inni í því eru ákveðnir hópar. Það er ekki sama hætta fyrir alla. Við erum rétt að byrja með ákveðna vinnu og erum að haldleggja mikið magn af símum og tölvum og öðru slíku. Öll sú vinna er á algjöru frumstigi.“

Tengjast fleiri einstaklingar þessu?

„Við getum ekki útilokað það,“ segir Karl. Lögregla tók fram á fundinum að þetta þýði ekki að aukin hætta sé á ferðinni á Íslandi en áður.

„Ef fólk hefur upplýsingar um að slík vopn séu í samfélaginu hvetjum við til þess að látið sé vita af þvi. Svona vopn geta verið hálfsjálfvirk, sem eru gríðarlega hættuleg vopn. Ef einhver hefur upplýsingar um svona vopn þá hvetjum við til þess að láta okkur vita,“ segir Grímur Grímsson.

Upplýsa ekki hvenær átti að fremja árásina

„Við munum reyna áfram að upplýsa almenning áfram. Aðalatriðið er að sú rannsókn sem við erum með í gangi er gríðarlega viðamikil og hún er flókin,“ segir Karl.

„Við erum að vinna saman að því að gera það og óskum eftir aðstoð almennings ef almenningur hefur upplýsingar, að koma því á framfæri. Erum með netfang sem er info@rsl.is og ef um bráðahættu er að ræða þá er það 112.“

Lögreglan segist ekki geta upplýst um hvenær umrædd afbrot hafi átt að vera framin, eða þá hvort það sé vitað. Telja að lunginn að vopnum mannanna sé nú í haldi lögreglu. Karl segir lögreglu telja sig hafa náð þannig tökum á málinu með umfangsmiklum aðgerðum að samfélaginu standi ekki hætta af vegna þess að svo stöddu.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá voru fjórir menn hand­teknir í gær í viða­mikilli að­gerð sér­sveitarinnar, meðal annars í Holta­smára í Kópa­vogi og í Mos­fells­bæ.

Vildi em­bættið í gær ekki svara spurningum um hand­tökurnar í gær en sagði í til­kynningu að rann­sóknin snúi meðal annars að skipu­lagðri glæpa­starf­semi og viða­miklum vopna­laga­brotum.

Fréttin hefur verið uppfærð.