Maður var handtekinn fyrir að nálgast kistu Elísabetar II. Bretlandsdrottningar í Westminster Hall í gærkvöldi.

BBC greinir frá.

Kista drottningarinnar hefur verið í Westminster Hall frá því á miðvikudag og hafa syrgjendur haft tækifæri til að votta drottningunni virðingu sína og sjá kistuna.

Langar raðir hafa myndast að kistu Elísabetar en búist var við að allt að 750 þúsund manns myndu leggja leið sína að kistunni. Jarðarför Elísabetar fer fram á mánudaginn kemur.

Sýnt hefur verið frá Westminster Hall í beinu streymi og datt streymið út um stutta stund í gær vegna atviksins.

Þá varð smá truflun á biðröðinni vegna málsins en það stóð ekki lengi yfir og röðin var ræst á ný að lokinni aðgerð lögreglu.