Karlmaður var í kvöld handtekinn við Norðurhellu í Hafnarfirði fyrir að ráðast á nágrannakonu sína.

Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að mikill viðbúnaður hafi verið hjá lögreglu vegna málsins en árásin hafi ekki reynst jafn alvarleg og tvær óljósar tilkynningar hafi gefið til kynna.

Karlmaðurinn er sakaður um að hafa slegið konuna í höfuðið og var hún flutt með höfuðáverka á slysadeild til aðhlynningar. Að sögn Skúla er hún ekki talin vera alvarlega slösuð.

Lögreglu barst tilkynning um árásina rétt fyrir klukkan sjö en Fréttablaðið fékk í kvöld ábendingu um að mikill fjöldi lögreglubifreiða hafi sést aka í Vallahverfi.

Skúli staðfestir að bifhjól, fimm lögreglubílar og tveir sjúkrabílar hafi verið sendir á vettvang í Hellnahverfinu. Var hluti viðbragðsaðila afturkallaður þegar þeir fyrstu komu á vettvang. Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu.