Einstaklingur var í gærkvöld handtekinn vegna líkamsárásar á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en óskað var eftir aðstoð lögreglu rétt fyrir miðnætti.

Fram kemur að einn hafi verið handtekinn á vettvangi, en hann hafi verið látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Þá var lögreglu tilkynnt um slagsmál fyrir utan skemmtistað um fjögurleytið í nótt, en ekki kemur meira fram um það mál. Auk þess var lögregla kölluð til að skemmtistað í miðbænum vegna einstaklings sem var til vandræða og var honum vísað í burtu.

Einnig var óskað eftir aðstoð lögreglu að skemmtistað í miðbænum vegna ofurölvi einstaklings sem var til vandræða. Fram kemur að einstaklingurinn hafi neitað að segja til nafns og var hann vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum.