Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann í Grafarvogi um kvöldmatarleytið í gær eftir að hafa haft ítrekuð afskipti af honum þar sem hann var að valda ónæði.
Að sögn lögreglu var maðurinn í mjög annarlegu ástandi og er auk þess grunaður um þjófnað. Hann var fluttur í fangaklefa en við vistun þar fundust fíkniefni á honum.
Rólegt var hjá lögreglu í gærkvöldi og í nótt en á ellefta tímanum í gærkvöldi var bifreið stöðvuð í miðborginni. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og vörslu fíkniefna.
Þá varð þriggja bíla árekstur í Hvalfjarðargöngum á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Nokkrar tafir urðu á umferð vegna óhappsins en sem betur fer slasaðist enginn, að sögn lögreglu.