Lögreglan hefur að minnsta kosti tvisvar þurft að handtaka ölvaðan karlmann á fertugsaldri í Laugardalnum fyrir að áreita börn. Fjallað var um þetta í hádegisfréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2.

Þórir Hákonarson, íþróttastjóri Þróttar, varaði foreldra iðkenda félagsins við í tölvupósti að maðurinn hefði verið á vappi um Laugardalinn að áreita börn og unglinga með því að hrópa og í einhverjum tilfellum berað sig fyrir framan hóp barna sem voru á leið frá íþróttasvæðinu.

Umræddur karlmaður sé oft á reiðhjóli og í kringum fertugt.

Lögreglan staðfestir í samtali við Fréttablaðið að málið sé til rannsóknar hjá kynferðisbrotadeild. Maðurinn var handtekinn síðastliðinn laugardag.

Engar skipulagðar æfingar eru í gangi á íþróttasvæðinu þessa dagana vegna sóttvarnartakmarkanna og eru því börn og unglingar oft að leika sér á svæðinu án þjálfara sinna.