Karlmaður var handtekinn í Síðumúla í dag eftir að hafa gengið inn í fyrirtæki þar, að því er virtist, vopnaður skotvopni.
„Það var tilkynnt um mann fara með skotvopn fara með skotvopn inn í fyrirtæki í Síðumúla. Við það fara ákveðin viðbrögð í gang,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn.
Hann segir að stuttu eftir að tilkynnt var um manninn hafi lögregla, ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, verið komin á vettvang og handtóku manninn.
„Skotvopnið reyndist vera eftirlíking, mjög raunveruleg eftirlíking af skotvopni. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð,“ segir Ásgeir.
Hann segir að aðgerðum sé lokið á vettvangi og að nú hefjist rannsókn málsins.