Maður var handtekinn í morgun eftir að hafa „veist að bifreið og ökumanni í hverfi 108,“ að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu.
Ökumaðurinn varð fyrir kjaftshöggi en áverkar ekki taldir miklir.
Gerandi farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn en fannst þó stuttu seinna skammt frá. Hann er nú vistaður í fanga fangageymslu lögreglu.
Töluvert var um ölvunar- og fíkniefnaakstur í nótt.
Handtekin eftir líkamsárás og húsbrot
Þá var tilkynnt um líkamsárás á íbúðarhúsnæði í hverfi 109. Árásaraðili var farinn af vettvangi þegar lögregla mætti á staðinn en þolandinn var með áverka á höfði og á bráðadeild til aðhlynningar.
Skömmu eftir miðnættið var maður í annarlegu ástandi handtekinn í hverfi 111. „Lögregla var að vísa manninum úr húsi þar sem hann var búinn að koma sér fyrir á sameign. Maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu, neitaði að gefa upp nafn eða kennitölu og veittist að lögreglu. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.“
Þá var kona handtekin í úthverfi Reykjavíkur á fjórða tímanum í nótt, grunuð um húsbrot og eignaspjöll. Konan var vistuð í fangageymslu og málið er í rannsókn.