Lögreglan á Suðurlandi hefur handtekið einstakling sem grunaður er að hafa skotið hest með ör í nágrenni við Selfoss í gær. Lögreglu barst tilkynning um málið síðdegis í gær.
Í kjölfarið framkvæmdi lögregla húsleit í nágrenni við Selfoss og naut við það aðstoðar sérsveitar Ríkislögreglustjóra. „Við húsleitina var grunaður einstaklingur handtekinn auk þess að hald var lagt á boga, örvar og nokkurn fjölda eggvopna,“ segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi.
Málið er til meðferðar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi og miðar rannsókn vel.
„Okkur er mjög brugðið“
Í morgun greindi Arnar Kjærnested frá því að skotið hefði verið hestinn hans. „Hesturinn er í stykki hér fyrir framan hús hjá okkur og því nokkuð ljóst að um ásetning er að ræða,“ sagði hann í Facebook-færslu.
„Okkur er mjög brugðið að þetta skyldi gert og vekur óneitanlega óöryggi hjá manni með sig, sitt og sína.“
Örin náði 15 sentímetra inn í læri hestsins, sem hefur hlotið meðferð dýralæknis.