Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu skömmu fyrir miðnætti í gær um mann sem var að handleika hníf innan um hóp ungmenna í Árbæ.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Maðurinn var handtekinn af lögreglu en hann reyndist vera í annarlegu ástandi. Lögreglu hafði áður borist tilkynning vegna mannsins en þá hafði hann verið að koma út úr skóla þar sem innbrotskerfi var í gangi.

Að sögn lögreglu er maðurinn grunaður um húsbrot, brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Þá sinnti lögreglan þremur rafskútuslysum en allir þrír ökumenn rafhlaupahjólanna voru flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Bráðadeild.

Lögreglu barst tilkynning um umferðarslys og bílveltu í miðbæ Reykjavíkur rétt eftir klukkan hálf tvö í nótt.

Ökumaður og farþegi voru fluttir með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Bráðadeild en grunur er um ölvun við akstur. Í dagbók lögreglu kemur fram að báðir aðilar verði handteknir og vistaðir í fangageymslu lögreglunnar að lokinni aðhlynningu á bráðadeild.
Bifreiðin var flutt af vettvangi með Króki og var Orkuveitan ræst út vegna tjóns á ljósastaur.