Fertugur karlmaður hefur verið handtekinn eftir að hann skall á mikill ferð á fimm ára stúlku á skíðasvæðinu Flaine í Haute Savoie í frönsku ölpunum á laugardagsmorgun.
Stúlkan var í skíðakennslu með fjórum öðrum börnum er „skíðamaður skall harkalega á henni er hún reyndi án árangurs að forða sér“ segir saksóknari í Bonneville sem fer með málið.
Er slysið varð var hún í röð við skíðabrekku sem ætluð er byrjendum og stóð fyrir aftan skíðakennara frá franska skíðaskólanum Ecole du Ski Français. Reynt var að endurlífga hana á staðnum en það tókst ekki og lést hún er flogið var með hana á sjúkrahús í þyrlu.
Rannsakað sem manndráp af gáleysi
Samkvæmt breska dagblaðinu Telegraph er stúlkan bresk en fjölskylda hennar býr í Genf í Sviss. Hún og fjölskylda hennar voru í fríi á svæðinu þar sem þau eiga hús.
Málið er rannsakað sem manndráp af gáleysi og verður þar einkum horft til þess á hve miklum hraða maðurinn var og hvort hann hafi „brotið gegn reglum um öryggi og aðgát“. Rannsóknin hefst af fullum krafti á mánudag og verður stúlkan þá krufin.
Jean-Paul Constant, bæjarstjóri í Arâches þar sem atvikið átti sér stað, segir að fjölskyldan stúlkunnar hafi snúið aftur til síns heima og starfsfólk sem vitni varð að því fái áfallahjálp.