Bíll var stöðvaður í Vestur­bænum í Reykja­vík skömmu eftir klukkan tíu í gær. Þegar öku­maður steig út úr bílnum kom í ljós að ekki hafði verið gengið nógu tryggi­lega frá og gleymt að setja í hand­bremsu. Í kjöl­farið rann bíllinn á lög­reglu­bif­reiðina.

Öku­maðurinn var hand­tekinn, grunaður um akstur bif­reiðar undir á­hrifum á­fengis og/eða fíkni­efna, og vistaður fyrir rann­sókn máls í fanga­geymslu lög­reglu.

Ók á hús

Lög­reglu barst til­kynning um um­ferðar­ó­happ í Breið­holti rétt fyrir mið­nætti í gær. Öku­maður hafði ekið á hús og stungið af frá vett­vangi. Vitni var að ó­happinu og tók sá aðili niður öku­númer og gerð öku­tækisins. Málið er í rann­sókn.

Á sama tíma og til­kynning barst um óhappið var tilkynnt um líkams­á­rás í Grafar­vogi. Tveir menn voru að ganga í skrokk á manni og börðu hann meðal annars í höfuðið með á­haldi. Þeir yfir­gáfu vett­vang síðan á bíl og voru farnir þegar lög­reglu bar að garði.

Sjúkra­bif­reið var einnig kölluð á svæðið en ekki var talinn þörf á að flytja manninn á sjúkra­hús. Málið er til rann­sóknar hjá lög­reglu.