Danskur lista­maður var hand­tekinn í Sil­ke­borg á föstu­dag fyrir að hafa unnið skemmdar­verk á mál­verki eftir Asger Jorn, einn þekktasta danska fram­úr­stefnu­lista­mann 20. aldar.

Ibi-Pippi Orup He­dega­ard fór inn á Jorn safnið á föstu­dag á­samt hópi fólks, krotaði nafn sitt á verkið Den foruroligende ælling (eða Í­skyggi­legi andar­unginn), hellti lími yfir strigann og festi ljós­mynd af sjálfum sér á verkið.

Ýmsir telja að um sé að ræða mót­mæli á vegum öfga­hægri­hópa en mynd­bandi af at­vikinu var streymt í beinni á Face­book-síðunni Pat­riot­er­ne Går Live sem rekin er af hægri­sinnuðum öfga­hópi sem barist hefur gegn réttindum Múslima í Dan­mörku.

Ibi-Pippi sagði hins vegar í yfir­lýsingu sem hún birti á Face­book að um hafi verið að ræða list­rænan gjörning sem væri fram­hald af verkum Asger Jorn. Segist hún í raun hafa skapað nýtt „verk“ sem hún nefnir Den foruroligende kælling eða Í­skyggi­lega kellingin.

„Ef þið eruð í ná­grenninu getið þið farið og dáðst að nýja verkinu mínu. Þið verðið samt að hafa hraðar hendur því ég býst ekki við því að það muni hanga uppi lengi,“ skrifar Ibi-Pippi á Face­book og birtir mynd af sér með verki Jorns.

Um­breytti verkum annarra lista­manna

Asger Jorn (1914-1973) er danskur lista­maður sem varð þekktur um miðja 20. öld fyrir fram­úr­stefnu­list í tengslum við list­hópinn Cobra. Í­skyggi­legi andar­unginn frá árinu 1959 er eitt af hans þekktustu verkum en um er að ræða mynd af sveita­bæ í rómantískum stíl sem lista­maðurinn keypti á flóa­markaði í París og um­breytti svo með því að mála andar­unga í æpandi litum ofan á myndina.

Þessi að­ferð Jorns við að eigna sér verk annarra lista­manna og um­breyta þeim hefur verið kölluð détour­nement (af­vega­leiðing) af list­fræðingum. Kveðst Ibi-Pippi hafa fram­kvæmt tvö­falda détour­nement á verki Jorns með gjörningi sínum.

Jabob Thage, safn­stjóri Jorn lista­safnsins, sagði í sam­tali við DR á föstu­dag að unnið væri að því að lag­færa skemmdirnar á lista­verkinu en taldi þó of snemmt að segja til um hvort hægt væri að bjarga verkinu.

„Það er svo stutt síðan að þetta gerðist að það er enn­þá lím­lykt í öllu safninu. En það er mjög erfitt að ná þessu lími af,“ sagði hann og kvaðst líta málið mjög al­var­legum augum.

Biðst inni­legrar af­sökunar

Að sögn DR er Ibi-Pippi 44 ára danskur lista­maður sem vakti at­hygli í heima­landinu fyrir nokkrum árum þegar hún breytti kyn­skráningu sinni yfir í konu án þess að vilja gangast undir kyn­leið­réttingu. Í við­tali við sjón­varps­stöðina TV2 Østylland í gær sagðist Ibi-Pippi ekki hafa ætlað sér að eyði­leggja verk Asger Jorn og baðst af­sökunar á því að hafa fengið svo langt.

„Ég biðst inni­legrar af­sökunar á því að verkið hafi orðið fyrir svo miklum skemmdum. Það var ekki ætlun mín,“ sagði hún.

Ibi-Pippi var sleppt eftir yfir­heyrslu hjá lög­reglu en að sögn lög­reglu­manns hjá Lög­reglunni á Mið- og Vestur Jót­landi er verið að rann­saka málið sem saka­mál.