Chow Hang Tung, vara­for­maður Hong Kong banda­lagsins, var í dag hand­tekinn af lög­reglu í Hong Kong fyrir að skipu­leggja ó­lög­mæta sam­komu til minningar of­beldisins sem átti sér stað á Torgi hins himneska friðar fyrir 32 árum en Chow sagðist í gær við­búin því að hún yrði hand­tekin.

„Ég er undir­búin fyrir það að vera hand­tekin. Svona er Hong Kong núna. Ef þú berst fyrir lýð­ræðinu undir vald­boðs­stjórn, þá er hand­taka ó­hjá­kvæmi­leg,“ sagði Chow í sam­tali við BBC áður en hún var hand­tekin. „Ég er til­búin að gjalda fyrir það að berjast fyrir lýð­ræðinu.“

Chow hafði í gær hvatt íbúa til að kveikja á öllum ljósum í kringum sig til að minnast dagsins. Þá hand­tók lög­regla tví­tugan karl­mann í dag sem er líkt og Chow sakaður um að hafa skipu­lagt ó­lög­mæta sam­komu í til­efni dagsins, og er ekki ó­lík­legt að fleiri verði hand­teknir í dag.

Síðast­liðna mánuði hafa fjöl­margir lýð­ræðis­sinnar verið hand­teknir í Hong Kong, margir fyrir að skipuleggja ólögmætar samkomur, og hafa fangelsis­dómar gegn þeim hrannast upp.

Hluti þeirra hafa verið hand­teknir fyrir brot á öryggis­lögum sem tóku gildi í fyrra en lögin hafa verið veru­lega um­deild og hafa yfir­völd verið sökuð um að fara í her­­ferð gegn lýð­ræðis­sinnum.

Aðeins Hong Kong og Macau mega minnast dagsins

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hefur lög­regla lokað fyrir að­gengi að Victoria Park í dag, þar sem í­búar hafa reglu­lega safnast saman yfir árin, og eru nú þúsundir lög­reglu­manna í við­bragðs­stöðu á svæðinu.

Ár­lega hafa í­búar safnast saman þann 4. júní til að minnast þeirra sem féllu í her­ferð yfir­valda gegn lýð­ræðis­sinnum í Peking. Þrátt fyrir að at­burðirnir sem minnst er hafi átt sér stað í Peking eru Hong Kong og Macau einu kín­versku yfir­ráða­svæðin sem mega halda upp á daginn.

Yfir­völd í Hong Kong bönnuðu sam­komur til minningar dagsins í ár, líkt og í fyrra, vegna kóróna­veirufar­aldursins auk þess sem yfir­völd í Macau bönnuðu við­burðinn í ár þar sem slíkt myndi vera brot á hegningar­lögum.