„Það var sem sagt ég sem var handtekinn áðan á Skólavörðustíg,“ segir Elínborg Harpa Önundardóttir, aktivisti, í samtali við Fréttablaðið. Fréttir bárust í dag um að kona hefði verið handtekin fyrir að mótmæla Gleðigöngunni í miðbænum í dag. Elínborg hafði hins vegar hlakkað til Gleðigöngunnar en brá heldur betur í brún þegar þrír lögreglumenn gripu í hana þar sem hún var á göngu við hátíðarhöldin í dag. „Ég var bara að labba, ekki að mótmæla neinu.“

Hún útskýrir að hún hafi ætlað að fylgjast með Gleðigöngunni ásamt vinum sínum sem biðu eftir henni hinum megin við götuna. Gangan hafi verið langt fyrir aftan hana þegar hún gekk yfir. „Ég átta mig ekki á því þá að við gatnamótin á Bankastræti eru mörkin þar sem byrjað er að setja upp járngirðingar vegna göngunnar.“

Þekkt fyrir vesen

„Allt í einu grípa þrír lögreglumenn í mig og segja mér að ég megi ekki fara yfir þarna.“ Lögregla hélt að sögn Elínborgar í báðar hendur hennar. „Svo segja þeir mér að þeir viti hver ég sé og að ég sé alltaf með vesen.“ Elínborg er þekkt fyrir að berjast með No Borders og mótmæla brottvísunum hælisleitenda. Þá ásakar lögregla hana um að ætla að mótmæla í dag. „Ég útskýrir fyrir þeim að ég sé að fara að hitta vini mína og ætli alls ekki að mótmæla.“

Elínborg var með gyllta hálfgrímu í tilefni af hátíðarhöldunum en lögregla tilkynnti henni að slíkar grímur væri bannað að bera á almannafæri. „Ég benti þeim á að fullt af fólki væri bæði með grímu og andlitsmálningu á svæðinu sem heyrði undir sömu lög og þeir vitnuðu í.“ Lögregla lét sér fátt finnast um þá athugasemd.

Handtekin fyrir að vera hún sjálf

Hún ákvað þó að eftirláta þeim grímuna en var í kjölfarið beðin um skilríki. „Þá vissi ég strax í hvað stefndi og varð ótrúlega reið og sár, vegna þess að þeir voru ekki að taka mig fyrir neitt sem ég hafði gert heldur bara fyrir það hver ég er.“ Það hafi verið ljóst frá upphafi að sögn Elínborgar.

Lögregla vildi færa Elínborgu til hliðar en hún kvaðst vilja vera áfram sýnileg. „Ég vildi að fólk sæi hvað væri í gangi.“ Hún tók síðan upp símann sinn til að hringja í Hinsegin daga til að leiðrétta þann misskilning að hún hafi verið að mótmæla og einnig til að taka upp það sem átti sér stað. „Þá verða lögreglumennirnir rosalega reiðir og reyna að taka af mér símann þrátt fyrir að hafa enga heimild til þess.“ Elínborg vildi því ekki afhenda þeim símann.

Elínborg var handtekin á Gleðigöngunni í dag.
FRÉTTABLAÐIÐ/BENEDIKT BÓAS

Handjárnuð og skellt í jörðina

„Þá er mér skellt niður, hendur fyrri aftan bak og sett í handjárn.“ Elínborg var í kjölfarið færð í lögreglubíl og flutt upp á stöð. „Þar útskýra þeir ekki hvað ég á að hafa gert og mér er einfaldlega sagt að ég hafi ekki farið eftir fyrirmælum lögreglu.“ Þegar hún spurði nánar um hvaða fyrirmæli væri átt við fékk hún engin svör.

Að sögn Elínborgar tjáir lögregla henni síðan að hún megi fara um leið og hún rói sig niður. „Þá áttu þeir líklega við að ég var grátandi eiginlega allan tíma sem var bæði vegna þess að þeir meiddu mig og hvað þetta var ótrúlega ósanngjarnt.“ Lögreglan hafi síðan sleppt Elínborgu eftir að hafa fullvissað hana um að muni hún óhlýðnast fyrirmælum lögreglu aftur í dag fái hún ekki að njóta hátíðarhalda í tengslum við Hinsegin daga.

Hlaut áverkavottorð

Eftir að Elínborgu var sleppt fór hún á læknavaktina þar sem hún fékk áverkavottorð. „Þeir meiddu mig oft bæði við handtökuna og inni í bílnum,“ segir Elínborg en hún er með áverka á læri og andliti ásamt verulega bólgnum úlnliðum.

Hún segir það vera enn verra að heyra sögusagnir þess efnis að hún hafi ætlað að mótmæla Gleðigöngunni og segir þær upplýsingar engan vegin standast. „Það var ótrúlega gaman á Pride og ég ætlaði bara að skemmta mér í dag.“

Einelti þekkt hjá lögreglu

Lögmaður Elínborgar sagði henni að um augljóst einelti væri að ræða og að það væri þekkt hjá lögreglunni að haga sér svona við þá einstaklinga sem þeim væri ekki vel við. „Þetta var alveg ömurlega ósanngjarnt og sérstaklega kaldhæðnislegt að svona hafi gerst á degi sem þessum,“ segir Elínborg að lokum.

Myndband náðist af handtökunni en þar má sjá lögreglu við hantöku og heyra Elínborgu segja: ,,Ekki leyfa þeim að taka mig, ég gerði ekki neitt."