Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um helgina um að borgari hafi gengið fram á handsprengju við Ásbrú. Sprengjan fannst á Pattersonsvæðinu svokallaða sem er gamalt æfingasvæði bandaríska hersins.
Samkvæmt fréttatilkynningu lögreglunnar var haft samband við sprengjusérfræðinga og starfsmenn Landhelgisgæslunnar eyddu sprengjunni. Talið er að sprengjan hafi verið virk.