Lögreglan leitar að árásarmönnum sem veittust að einstaklingi í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi og lömdu hann með kylfum. Árásarþolinn handleggsbrotnaði í árásinni og var fluttur á bráðamóttöku. Gerendurnir voru farnir af vettvangi þegar lögreglan mætti og er þeirra leitað.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg á sinni könnu í gærkvöldi og í nótt en um hundrað mál voru þá skráð. Málin tengdust helst umferðinni og ölvun. Mikið var um hávaðakvartanir víðsvegar um borgina að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Tveir menn misstu stjórn á rafmagnshlaupahjólum og fengu áverka eftir að hafa fallið af þeim. Um er að ræða tvö aðskild mál. Fengu þeir báðir högg á höfuðið og voru fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Annar þeirra var með skerta meðvitund.

Ökumaður slasaðist minniháttar eftir að hafa ekið á ljósastór í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Bíllinn var óökufær eftir og var fluttur með kranabíl.

Annar ökumaður var lemstraður eftir að hafa velt bílnum sínum í Kópavogi. Maðurinn reyndist án ökuréttinda og undir áhrifum áfengis. Hann var fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar .

Sautján ára ökumaður var stöðvaður í Ártúnsbrekku eftir að hafa verið mældur á 158 kílómetra hraða. Var hann sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Lögreglan stöðvaði unglingapartý í Grafarvogi í gærkvöldi. Málið var afgreitt með aðkomu barnaverndar og foreldra.