Sænska akademían til­kynnti í dag að rit­höfundarnir Olga Tokarczuk og Peter Hand­ke hlytu bók­mennta­verð­laun Nóbels fyrir árið 2018 og 2019. Engin verð­laun voru veitt í flokknum í fyrra vegna hneykslis­máls í kjöl­far #met­oo hreyfingarinnar. Þá kom í ljós að eigin­maður eins nefndar­með­lims hefði gerst sekur um kyn­ferðis­brot sem leiddi til fjölda­upp­sagna í akademíunni.

Rómuð í heima­löndum sínum

Hin pólska Tokarczuk er fædd árið 1962 og hlýtur verð­launin fyrir árið 2018 en hún hefur lengi verið þekkt sem einn frum­legasti og vin­sælasti rit­höfundur Pól­lands af yngri kyn­slóðinni. Hún var fyrsti pólski rit­höfundurinn til að hljóta hin al­þjóð­legu Man Booker verð­laun fyrir skáld­söguna Flights. Tokarczuk ætti ekki að vera ó­kunn Ís­lendingum en hún var gestur á pólsku minningar­há­tíðinni í Reykja­vík árið 2006.

Hand­ke, sem er fæddur árið 1942, hlýtur verð­launin fyrir árið í ár en hann telst til einna stærstu þýsku­mælandi skálda síðustu ára­tuga. Hand­ke hefur hlotið öll helstu bók­mennta­verð­laun Þýska­lands og Austur­ríkis en hann hefur áður verið orðaður við Nóbelinn. Hann hefur skrifað ríf­lega sex­tíu titla en skáld­saga hans Kinder­geschichte, eða Barna­saga, kom út í ís­lenskri þýðingu Péturs Gunnars­sonar árið 1987.