Kynhlutlausa persónufornafninu hán verður bætt við orðabækur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en það hefur hingað til ekki verið að finna í orðabókum stofnunarinnar. Þórdís Úlfarsdóttir, ritstjóri veforðabóka, staðfestir þetta og segir málið vera í vinnslu.
Þórdís segist ekki geta svarað því hvenær hán muni bætast við orðabækur Árnastofnunar enda taki þau inn ný orð í holskeflum, oftast á bilinu 20 til 100 orð í einu.
Þórdís segir að ákvörðunin um að taka inn nýtt persónufornafn hafi ekki verið auðveld.
„Við vitum að þetta er umdeilt ekki bara hjá stofnuninni heldur víða í samfélaginu. Af því að fornöfn eru svokölluð kerfisorð í málinu og maður leikur sér ekki að því að bæta við kerfisorðum bara einn góðan veðurdag,“ segir hún.
Árnastofnun heldur úti ýmsum orðabókum og orðasöfnum á netinu og má þar til dæmis nefna Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Íslenska nútímamálsorðabók og Íslenskt orðanet. Gera má ráð fyrir því að persónufornafnið hán muni bætast við þessar orðabækur á næstu misserum.