Kyn­hlut­lausa per­sónu­for­nafninu hán verður bætt við orða­bækur Stofnunar Árna Magnús­sonar í ís­lenskum fræðum en það hefur hingað til ekki verið að finna í orða­bókum stofnunarinnar. Þór­dís Úlfars­dóttir, rit­stjóri vef­orða­bóka, stað­festir þetta og segir málið vera í vinnslu.

Þór­dís segist ekki geta svarað því hve­nær hán muni bætast við orða­bækur Árna­stofnunar enda taki þau inn ný orð í hol­skeflum, oftast á bilinu 20 til 100 orð í einu.

Þór­dís segir að á­kvörðunin um að taka inn nýtt per­sónu­for­nafn hafi ekki verið auð­veld.

„Við vitum að þetta er um­deilt ekki bara hjá stofnuninni heldur víða í sam­fé­laginu. Af því að forn­öfn eru svo­kölluð kerfis­orð í málinu og maður leikur sér ekki að því að bæta við kerfis­orðum bara einn góðan veður­dag,“ segir hún.

Árna­stofnun heldur úti ýmsum orða­bókum og orða­söfnum á netinu og má þar til dæmis nefna Beygingar­lýsingu ís­lensks nú­tíma­máls, Ís­lenska nú­tíma­máls­orða­bók og Ís­lenskt orða­net. Gera má ráð fyrir því að per­sónu­for­nafnið hán muni bætast við þessar orða­bækur á næstu misserum.