Nú þegar fyrsta helgin í samkomubanni er skollin á lék okkur forvitni á að vita hvað fólk hefur fyrir stafni.

Hvað á að gera um helgina?


Ná áttum! Það hefur mikið gengið á í vinnunni síðustu tvær vikur. þar sem Háskóli Ísland hefur umbylt starfsemi sinni. En nú er búið að loka skólum hjá börnunum svo við foreldrarnir þurfum að setjast yfir hvernig við getum betur stutt við námið hjá þeim og komið smá rútínu á lífið hjá öllum.


Hvernig leggst samkomubannið í þig?


Það leggst ekki illa í mig. Við fjölskyldan erum búin að koma okkur í ýmis konar verkefni saman – sameiginlegt skyldu-Netflix áhorf og ég ætla í þrek með miðdótturinni. Og það eina sem ég hef hamstrað eru púsluspil. En auðvitað hefur maður áhyggjur líka. Af fólki sem missir tekjur, foreldrum fatlaðra barna sem fá ekki þjónustu og gamla fólkinu sem fær ekki heimsóknir.


Hvað gerirðu til að halda andanum uppi þessa dagana?


Það er upplífgandi að sjá Íslendinga sýna sína bestu hliðar í þessari krísu eins og að syngja fyrir gamla fólkið og taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Maður kemst langt á því! Svo eru Alma, Víðir og Þórólfur náttúrulega ein síns liðs að halda þjóðinni réttu megin við línuna varðandi geðheilsu.

Stjórnvöld fá verðskuldaðar þakkir fyrir trausta innviði og að hafa þetta fagfólk við stjórnvölinn. Svo finnast mér samvera, hreyfing og útivera vera augljós bjargráð.