Gríðar­legir gróður­eldar geisa nú um vestur­hluta Banda­ríkjanna í kjöl­far hita­bylgju sem slegið hefur öll met í Norður-Ameríku undan­farnar vikur. Sér­fræðingar vara við því að land­svæðið sé fast í hættu­legri hring­rás af hita­bylgjum, þurrkum og eldum sem mun að­eins versna eftir því sem af­leiðingar hnatt­rænnar hlýnunar koma betur í ljós. The Guardian greinir frá.

Slökkvi­liðs­menn berjast nú við gróður­elda í fjöl­mörgum fylkjum Banda­ríkjanna allt frá Arizona til Was­hington og opin­berir aðilar í Kali­forníu segja að fjöldi skógar­elda í ár muni að öllum líkindum fara fram úr met­fjölda gróður­elda á árinu 2020.

Hita­bylgjan sem geisað hefur um vestur­strönd og mið­ríki Banda­ríkjanna hefur valdið því að vatns­ból fjöl­margra ríkja frá Kali­forníu til N­evada eru að þurrkast upp á í­skyggi­legum hraða. Þurrkurinn veldur því að án nokkurs raka hitnar land­svæðið mun hraðar sem gerir allan gróður mun eld­fimari.

„Þetta veldur líka sam­verkandi heilsu­fars­legum á­hrifum hjá við­kvæmustu og bág­stöddustu sam­fé­lags­hópum okkar. Í fyrsta lagi er það hitinn. Svo hefur þetta líka á­hrif á vatns­birgðir margra fjöl­skyldna. Svo er það líka sami hiti og þurrkur sem er að ýfa upp gróður­elda og veldur reyk­fylltu um­hverfi og ó­heil­brigðri loft­mengun,“ segir Jose Pablo Ortiz Partida, lofts­lags­vísinda­maður hjá þrýsti­hópnum Union of Concer­ne­d Scientists.

Stærstu gróður­eldar þessa árs kviknuðu í Kali­forníu um helgina og hafa þeir þegar brennt yfir 362 fer­kíló­metra land­svæði. Eldurinn í Beckwourth óx svo mikið að úr varð svo­kallaður eld­ský­strókur.

Þá hafa gróður­eldarnir í suður­hluta Oregon-fylkis þegar gleypt rúm­lega 621 fer­kíló­metra svæði og hafa tvö­faldað stærð sína þrisvar sinnum frá því um helgina.

Þurrkarnir valda meðal annars minnkandi vatnsyfirborði í Isabella vatni í Kaliforníu.
Fréttablaðið/Getty

Allir eldarnir bera merki lofts­lags­breytinga

Lofts­lags­vísinda­menn segja svo um­fangs­mikla elda vera mjög ó­al­genga svo snemma á árinu en áður fyrr sáust gróður­eldar aðal­lega síð­sumars og í byrjun hausts. Þá er talið að hita­bylgjan og þurrkar sem geisað hafa um vestur­strönd Banda­ríkjanna undan­farið gætu valdið mun verri gróður­eldum síðar í sumar og í byrjun næsta hausts.

Búist er við því að reykur frá eldunum muni berast þvert yfir Banda­ríkin í þessari viku og jafn­vel alla leið til Kanada. Sam­kvæmt veður­spám mun hitinn á vestur­ströndinni minnka síðar í vikunni og búist er við rigningu í suð­vestri yfir vikuna.

„Allir þessir eldar bera ein­hver merki lofts­lags­breytinga sem marg­faldar ógnina. Við höfum alltaf séð elda í vestri. Lands­lagið var að miklu leyti mótað af eldi. En styrkur eldsins, það að sumir þessara elda séu að gerast svo snemma sumars, þessir hlutir eru klár­lega á­hyggju­efni,“ segir Faith Kearns, vísinda­maður hjá Vatn­s­auð­linda­stofnun Kali­forníu.

Kearns segir það vera mjög niður­drepandi og svekkjandi fyrir lofts­lags­vísinda­menn sem hafa varað al­menning við yfir­vofandi ham­förum lofts­lags­breytinga árum saman að verða vitni að á­standinu í Norður-Ameríku núna. Hún segir að kannski muni þetta leiða til aukinnar með­vitundar hjá al­menningi um lofts­lags­vandann en segir það þó alls ó­víst hvort þetta muni leiða til breytinga.