Fylkiskosningar í Hamborg verða haldnar á sunnudag og allra augu eru á stóru flokkunum tveimur, Sósíaldemókrötum og Kristilegum demókrötum.

Hamborg er eitt af helstu vígjum Sósíaldemókrata og í síðustu tvennum kosningum hefur flokkurinn náð nærri helmingi allra atkvæða. Í síðustu kosningum leiddi hinn vinsæli Olaf Scholz flokkinn, en hann gegnir nú stöðu fjármálaráðherra og nýtur hans því ekki við.

Kristilegir demókratar hafa stöðugt misst fylgi í Hamborg á undanförnum árum og búist er við að fylgistapið haldi áfram í ljósi hatrammra innanflokksátaka og foringjakrísu.

Eins og í öðrum kosningum undanfarið ár var búist við því að stóru flokkarnir tveir myndu báðir tapa miklu fylgi í Hamborg. En skoðanakannanir benda nú til þess að Sósíaldemókratar nái viðspyrnu, nái að lágmarka skaðann og verði áfram stærsti flokkurinn í fylkinu. Fari úr 45 prósentum niður í 39.

Miðað við skoðanakannanir verða Græningjar óumdeildir sigurvegarar kosninganna og rúmlega tvöfalda fylgi sitt, úr 11 prósentum í 24. Er þetta í takt við uppgang flokksins á undanförnum mánuðum, og kröfu ungs fólks um aðgerðir í loftslagsmálum. Á landsvísu mælast Græningjar nú næst stærsti flokkurinn, á eftir Kristilegum demókrötum. Ólíkt flestum öðrum flokkum ríkir ró innan Græningja yfir forystunni, stefnunni og sambandinu við aðra flokka.

Annar flokkur sem hefur verið á siglingu í þýskum stjórnmálum, hægri öfgaflokkurinn AFD, virðist ekki ná að auka fylgi sitt í Hamborg, sem er almennt talið eitt frjálslyndasta fylki Þýskalands. Flokkurinn náði sex prósentum árið 2015, í sínum fyrstu kosningum, og mælist með sama fylgi nú.

Kosningarnar í Hamborg eru þær fyrstu frá hinum umdeildu kosningum í Þýringalandi í byrjun mánaðarins. Þá var Thomas Kemmerich, leiðtogi Frjálsra Demókrata (FDP), óvænt kjörinn eftir stuðning frá AFD. Hann sagði af sér embætti enda hafa flokkarnir sammælst um að starfa ekki með AFD. Stormasamt hefur verið innan FDP og Kristilegra demókrata, sem einnig studdu Kemmerich í kosningunum, síðan þá. Að auki hefur ný og róttækari forysta tekið við stjórnartaumunum hjá Sósíaldemókrötum. Óhætt er að segja að róstusamt sé í þýskum stjórnmálum þessa dagana og alls má vænta í Hamborg.