Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að skemmdirnar á Hamarshöllinni í nótt sé mikið áfall fyrir bæjarbúa. Hún segir í samtali við Fréttablaðið að það sé mikil mildi að enginn hafi slasast og vill hún koma á framfæri miklu þakklæti til starfsmanna sem unnu hörðum höndum að því að reyna að bjarga húsinu.

„Starfsmennirnir okkar stóðu sig frábærlega. Þeir lögðu allt á sig til að þetta myndi ekki gerast og hafa unnið í gegnum tíðina unnið mjög gott starf, verið vakandi og sofandi yfir höllinni. Þeir lögðu sig alla fram, ég vil koma á framfæri miklu þakklæti til þeirra,“ segir Aldís.

Hún fór upp að svæðinu í morgun og skoðaði aðstæður.

„Þetta er mikið áfall. Höllin er búin að standa af sér öll veður og hafa þau verið ansi válynd og mislynd síðustu tíu ár. Síðan gerist eitthvað í nótt þrátt fyrir að við vissum af þessu veðri sem var að koma, við vorum búin að gera ráðstafanir. Þetta er auðvitað ekkert venjulegt hús og við erum með viðbragðsáætlanir. Veðrið lætur ekki hæða að sér og rífur höllina með sér í nótt.“

Frá svæðinu í morgun.

Mikil áhrif á íþróttastarf bæjarins

Þetta mun hafa mikil áhrif á íþróttastarfið í Hveragerði.

„Þetta er gríðarlegt áfall fyrir alla Hvergerðinga. Íþróttastarfið hefur blómstrað með tilkomu þessu húss, börn hafa getað æft hvernig sem viðrar. Við þurfum að komast að því hvað skeði og ákveða hvert framhaldið verður.“

Aldís segir að Hamarshöllin muni rísa aftur í einni eða annarri mynd.

„Þetta er verkefni eins og hvert annað. Við eigum eftir að ræða framhaldið með okkar tryggingafélagi. Það er eitt sem er alveg ljóst. Hamarshöllin mun rísa aftur. Stóri kostnaðurinn við þetta hús eru sökklarnir sem eru þarna enn, það kemur í ljós hvort á þá kemur annar dúkur eða öðruvísi bygging.“