Hæstu sanngirnisbætur sem ríkið greiðir út verða þrjár milljónir í stað sex verði ný löggjöf Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra að veruleika. Þetta kemur fram í mati á áhrifum lagasetningar sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.

Til stendur að gera nýja heildarlöggjöf um sanngirnisbætur til að ná betur utan um allt fólk sem orðið hefur fyrir varanlegum skaða vegna ofbeldis eða misréttis hjá stofnunum ríkisins eða sveitarfélaga. Löggjöfin mun einnig veita rýmri tímamörk en núverandi löggjöf nær einungis til brota sem framin voru til 1. febrúar árið 1993 og falla lögin úr gildi þann 31. desember árið 2023.

Verður hún byggð á því kerfi sem verið hefur við lýði í Noregi um nokkurt skeið. Það er að nefnd tveggja dómara og tveggja þingmanna taki ákvörðun um bætur og ekki sé hægt að skjóta niðurstöðunni til dómstóla.

Í dag eru í gildi lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum fyrir börn. Kemur þar fram að bætur til einstaklings skulu aldrei vera hærri en sex milljónir króna en hámarkið breytist á hverju ári miðað við vísitölu neysluverðs.

Meðal þeirra stofnana sem greitt hefur verið út fyrir eru vistheimilið Breiðavík, Silungapollur, Kumbaravogur, Bjarg og Heyrnleysingjaskólinn.

Í matinu kemur fram að ekki sé hægt að leggja mat á umfang kostnaðar við sanngirnisbætur á þessu stigi. „Þó má búast við að þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að hámarks bótafjárhæð sé óveruleg og þar sem ekki verður þá þörf á stórum, tímafrekum og fjárhagslega dýrum rannsóknum varðandi tiltekna hópa, sem einnig mundu kalla á greiðslu bóta, verðir kostnaður af lagasetningunni í lágmarki,“ segir þar.