Lög­reglu­menn í Minnea­polis í Banda­ríkjunum hafa beitt háls­takinu, sem talið er að hafi dregið Banda­ríkja­manninn Geor­ge Floyd til bana, minnst 428 sinnum frá árinu 2012.

Þetta kemur fram í frétt CNN.

Floyd, sem var 46 ára, lést í síðustu viku eftir að lög­reglu­maður kraup aftan á hálsi hans í rúm­lega átta mínútur. Floyd bað hann í­trekað að losa takið þar sem hann gat ekki andað. Í niður­stöðum krufningar, sem að­stand­endur Floyd höfðu milli­göngu um, kom fram að Floyd hafi kafnað þegar þrengt var að öndunar­vegi hans.

Í frétt CNN kemur fram að í 58 ein­staklingar af þessum 428, eða 14 prósent, hafi misst með­vitund eftir að takinu var beitt. Miðað við þennan fjölda er um­ræddu háls­taki beitt að meðal­tali einu sinni í viku í Minnea­polis, en tekið er fram í frétt CNN að lög­reglu­mönnum víða um Banda­ríkin sé bannað að beita takinu þegar ein­staklingar eru yfir­bugaðir.

Þá vekur at­hygli að í tveimur þriðja hluta til­fella var háls­takið notað gegn þel­dökkum ein­stak­lingum í borg þar sem þel­dökkir eru í miklum minni­hluta, eða 19% íbúa.

Sam­kvæmt frétt CNN er lög­reglu­mönnum í Minnea­polis heimilt að setja þrýsting á háls ein­stak­lings sem verið er að yfir­buga svo lengi sem ekki er þengt að öndunar­vegi við­komandi. Leiðar­vísir hvað þetta varðar var síðast upp­færður hjá lög­reglunni í Minnea­polis árið 2012.

Lög­reglu­maðurinn í málinu, Derek Chau­vin, hefur verið á­kærður fyrir morð og kemur hann fyrir dómara síðar í þessum mánuði. Mikil ólga ríkir í Banda­ríkjunum vegna málsins og hafa þúsundir tekið þátt í mót­mælum undan­farna daga í borgum víðs vegar um Banda­ríkin.

CNN ræðir við Seth Stoug­hton, að­stoðar­laga­prófessor við Uni­versity of South Carolina, en Seth þessi hefur meðal annars skrifað bók um vald­beitingu lög­reglu­manna í Banda­ríkjunum. Hann segir að mörg stór lög­reglu­em­bætti í Banda­ríkjunum hafi bannað lög­reglu­mönnum að taka ein­stak­linga háls­taki á sjöunda ára­tug liðinnar aldar. Þá hafi komið upp sam­bæri­leg mál og eru til um­ræðu nú vegna dauða Geor­ge Floyd. Er hann þeirrar skoðunar að yfir­völd í Minnea­polis ættu að banna um­rætt háls­tak.

„Ef háls­takið er fram­kvæmt á réttan hátt er það til­tölu­lega öruggt. Vanda­málið er að það er mjög auð­velt að beita því rangt,“ segir Seth.