Margrét Lilja Arn­heiðar­dóttir er 22 ára kona sem stundar nám við Háskóla Íslands. Hún greindist með heilkenni sem kallast Ehlers–Danlos árið 2017 sem veldur skemmdum í bandvef. Reynslusaga hennar sem birtist á Facebook síðunni Við erum hér líka hefur vakið mikla athygli. Síðan er hluti af herferð til þess að vekja athygli á bágri stöðu öryrkja í íslensku samfélagi.

Svona hefst frásögnin:

„Halló, heyrir einhver í mér?“ Hrópin bergmála á þröngum upplýstum stuttum kuldalegum gangi. Í öðru enda hans eru hátalara sem enginn hefur sótt en við hinn situr ung stúlka í léttum hjólastól og keyrir hann utan í hurðina í von um að einhver hinum megin heyri bank. Hún kallar aftur: „Halló, ég er lokuð hérna inni, getið þið hjálpað mér.“ Orðin kastast af veggjunum og deyja út. Bílstjórinn hjá ferliþjónustunni hafði ýtt ungu konunni inn fyrir dyrnar og farið, ekki áttað sig á að hún hafði ekki afl til að opnað dyrnar út úr ganginum. Og ekki heldur þær sem hún kom inn um. Henni er mál að pissa. Hún vill ekki vera þarna. Hún vill ekki vera í hjólastól. Hún vildi að hún gæti opnað hurðina, en hún getur það ekki, hendurnar eru aflvana. Hún gæti ekki opnað dyrnar þótt líf hennar lægi við. Hún er bjargarlaus lokuð inn á þjónustugangi í Eirbergi, kennslustofum Háskóla Íslands við Landspítalann. Hún er orðin of sein tíma. Hún kemst ekki á stólnum sínum sömu leið og aðrir nemendur, þarf að fara inn um þjónustuinnganginn sem ætlaður er fyrir vörur, það sem kallað er aðföng. Nokkuð lýsandi fyrir stöðu okkar sem erum fötluð, hugsar konan, fordyrnar eru fyrir þau ófötluðu, okkur hinum er vísað á bakdyrnar. En nú eru þær læstar.“

Ekki gert ráð fyrir að veikt fólk taki námslán

„Ég get svo margt,“ segir Margrét. „Ég get auðvitað ekki allt, en ég get helling. Ég er ung og ég get lært. Ég get starfað í hreyfingu öryrkja og fyrir málefnum fatlaðra. Ég get barist fyrir viðurkenningu og bættu aðgengi, gegn fordómum og þöggun, fyrir virðingu og mannsæmandi kjörum. Ég hef það ekki slæmt, bý í eigin íbúð og get lifað góðu lífi ef ég gæti að orkubúskapnum mínum, sem er ekki góður. En svo er sumt sem ég get ekki. Ég get til dæmis ekki tekið námslán því ég veit ekki hvort ég haldi heilsu út önnina. Ef ég veikist falla lánin á mig. Það er ekki gert ráð fyrir að veikt fólk taki námslán. En ég get lært þangað til ég veikist og kannski veikist ég ekki og tek prófin. Ég hef alltaf átt auðvelt með að læra og mun örugglega ná góðum prófum.“