Hallgrímssókn er eina kirkjusóknin á lista Vinnumálastofnunar yfir fyrirtæki sem nýtt hafa hlutabótaleið stjórnvalda. Það þarf þó ekki að vera að Hallgrímskirkja sé eina kirkja landsins sem nýtti leiðina því listinn tekur aðeins til fyrirtækja með sex starfsmenn eða fleiri.

Messuhald féll niður í kirkjum landsins um leið og samkomutakmarkanir voru settar á hér á landi þann 16. mars síðastliðinn. Hallgrímssókn hefur þó tæpast orðið fyrir tekjumissi vegna messufallsins enda ókeypis í messur.

Miklar tekjur af kirkjuturninum

Hins vegar hefur Hallgrímskirkja haft tekjur af aðgangseyri sem rukkaður er af gestum sem fara upp í Hallgrímskirkjuturn. Námu tekjur þessar um það bil 200 milljónum króna árið 2016, að því er fram kom í frétt í Fréttablaðinu það ár, vegna mikillar fjölgunar gesta milli ára.

Samkvæmt greininingu sem Viðskiptablaðið birti árið 2016 var Hallgrímssókn sú sókn sem átti mestar eignir í árslok 2014. Að sérsjóði vegna Hallgrímskirkju meðtöldum var verðmæti eigna sóknarinnar um það bil 1,4 milljarðar króna.

Tímasetning samkomubannsins er vissulega óheppileg fyrir kirkjusóknir landsins enda háannatími snemma á vorin vegna páska og ferminga en allar vorfermingar hafa fallið niður.

Samkvæmt yfirlýsingu Biskups verða ákvarðanir um þjónustu kirkjunnar endurskoðaðar í samhengi við frekari ákvarðanir stjórnvalda.

Messuhald í Hallgrímskirkju hófst að nýju síðastliðinn sunnudag.