Sóknarnefnd Hallgrímskirkju hefur ákveðið að styrkja söfnun fyrir nauðstadda í Namibíu um hálfa milljón króna með framlagi úr Líknarsjóði kirkjunnar. Fjórir fyrrverandi þingmenn standa fyrir söfnuninni sem er ætlað að hjálpa þeim tæplega 300 þúsund manns sem er áætlað að þurfi á mataraðstoð að halda í landinu.

Það eru þau Hjálmar Árnason, Össur Skarphéðinsson, Ögmundur Jónasson og Unnur Brá Konráðsdóttir sem standa fyrir söfnuninni, en allt söfnunarféð rennur til Rauða krossins. „Við erum afskaplega þakklát Líknarsjóði Hallgrímskirkju fyrir þennan rausnarlega stuðning. Það munar um minna í svona söfnun,“ segir Hjálmar í tilkynningu sem aðilarnir sendu frá sér.

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, Björg Kjartansdóttir, sviðsstjóri fjáröflunar- og kynningarmála hjá Rauða krossinum og Hjálmar Árnason, einn forsvarsmanna söfnunarinnar.

Sóknarnefnd Hallgrímskirkju úthlutaði 9,5 milljónum króna, úr Líknarsjóðnum og messusamskotum, í styrki í desember. Stærstur hluti rennur til Hjálparstarfs kirkjunnar og Kristniboðssambandsins en ákveðið var að hálf milljón færi til neyðaraðstoðar í Namibíu.

„Þurrkar í sunnanverðri Afríku, sem rekja má til loftslagsbreytinga, ógna fæðuöryggi allt að 11 milljón manna. Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) hafa sent frá sér neyðarbeiðni til alþjóðasamfélagsins auk landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans um að bregðast við og aðstoða við fjármögnun á mataraðstoð og landbúnaðaraðstoð á þeim svæðum sem hafa orðið hvað verst út,“ segir í tilkynningunni.

„Í Namibíu er áætlað að tæplega 290.000 manns þurfi á mataraðstoð að halda. Í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi blésu þingmennirnir fyrrverandi til söfnunar meðal Íslendinga til að safna fé fyrir neyðaraðstoð í Namibíu. Allt fé sem safnast verður nýtt til að efla landbúnað, auka aðgengi að vatni auk peninga- og matargjafa til þeirra sem verst hafa orðið úti í þurrkunum í Namibíu, en Rauði krossinn einbeitir sér að um 15.000 manns sem mest þurfa á aðstoð að halda.“

Hægt er að leggja söfnuninni lið með 900 krónum með því að senda SMS-ið NAMIBIA í númerið 1900 en einnig er hægt að leggja inn á söfnunarreikning Rauða krossins nr. 0342-26-12, kt. 530269-2649, nota Kass eða Aur númerið 123 570 4000.