Halldóra Sigríður Sveinsdóttir verður í dag skipuð varaforseti Alþýðusambands Íslands.

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar sem sagði nýlega af sér embætti varaforseta ASÍ, í færslu á Facebook.

„Seinna í dag verður tilkynnt um skipun nýs varaforseta Alþýðusambandsins í minn stað. Verður það Halldóra Sveinsdóttir, formaður verkalýðsfélags á Selfossi sem nefnist Báran,“ skrifar Sólveig Anna en ASÍ hefur enn ekki tilkynnt opinberlega um skipun varaforsetans.

Halldóra Sigríður hefur gegnt stöðu formanns stéttarfélagsins Bárunnar á Selfossi frá 2010 en félagssvæði þess nær yfir Árnessýslu utan Ölfuss.

Dóra Sigga eins og hún er gjarnan kölluð er frá Þorlákshöfn en hún byrjaði ung að vinna í fiski og fór í Verzlunarskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Áður en hún varð formaður Bárunnar átti hún verslunina Kerlingakot.

Dóra Sigga.