Halldóra Geirharðsdóttir hlaut Edduverðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leiksigur sinn í kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð.

Halldóra hefur áður unnið Edduverðlaunin, en hún hlaut þau fyrir bestu leikkonu í aukahlutverki árið 2014 fyrir kvikmyndina Málmhaus. Þá hefur hún til viðbótar verið tilnefnd í fjögur skipti.

Þá hefur Halldóra unnið tvenn verðlaun fyrir leik sinn í Kona fer í stríð; á Valladolid alþjóðlegu kvikmynda hátíðinni og á Montréal kvikmyndahátíðinni. Var hún jafnframt tilnefnd til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna. 

Myndin hefur vakið þónokkra athygli og mikið lof gagnrýnanda. Hlaut hún m.a. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs í október í fyrra og hlaut jafnframt LUX-verðlaunin, en þau eru kvikmyndaverðlaun Evrópuþingsins, í nóvember síðastliðinn. Þá var myndin framlag Íslands til bandarísku Óskarsverðlaunanna.

Þá hefur bandaríska stórleikkonan Jodie Foster hefur svo lýst áhuga á því að endurgera kvikmyndina á enskri tungu.

Í myndinni fer Halldóra með hlutverk kórstjórans Höllu, og reyndar líka tvíburasystur Höllu. Halla lýsir yfir stríði á hendur íslenskri stóriðju og fremur í nafni þess skemmdarverk á raforku ver til verndar íslensku hálendi. Á meðan þessu stendur berst Höllu þær fregnir að umsókn hennar um að ættleiða munaðarlausa stúlku frá Úkraínu verði tekin til meðferðar.