Hall­dór Hall­dórs­son, staðar­um­sjónar­maður við rat­sjár­stöðina á Gunn­ólfs­víkur­fjalli, sem sat fastur uppi á fjallinu í stöðinni í tólf sólar­hringa í desember síðast­liðnum, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að sér þyki það ekki mikið til­töku­mál, slíkt sé hluti af vinnunni. Það hafi þó verið í það lengsta sem hann hefur þurft að sitja á fjallinu.

Líkt og fram hefur komið greindi Land­helgis­gæslan frá því á Face­book í dag að starfs­maður þess hefði setið fastur á Gunn­ólfs­víkur­fjalli í tólf daga í ó­veðrinu í desember. Rat­sjár­stöðvarnar eru mikil­vægur hlekkur í loft­varnar­kerfi NATO og gegna veiga­miklu hlut­verki fyrir flug­leið­sögu og öryggis­fjar­skipti landsins. Því er mikil­vægt að þær séu mannaðar öllum stundum.

„Þetta er bara hluti af vinnunni, það er að vera uppi þegar það eru vond veður. Það var náttúru­lega raf­magns­leysi hérna á svæðinu þannig að við þurftum að keyra vélar og halda öllu gangandi,“ segir Hall­dór léttur í bragði.

„Við erum náttúru­lega með nóg af mat og allt svo­leiðis þannig við þurfum enga utan­að­komandi að­stoð og eigum að geta verið þarna í að minnsta kosti mánuð held ég án að­stoðar,“ segir Hall­dór. „Kannski eina sem er, er dag­varan, líkt og mjólk en þá notar maður bara G-mjólkina.“

Hall­dór segir að alla­jafna séu tveir í stöðinni. Hinn starfs­maðurinn hafi verið veikur þegar veðrið skall á og svo ekki komist upp. „En þetta var með því lengsta þar sem þetta hefur gerst, að enginn komst upp til mín og ég komst ekki neitt, vegna raf­magns­leysisins.“

Spurður að því hvað hann geri sér til dægra­styttingar í slíkum að­stæðum segir Hall­dór að vinnan hafi átt hug hans allan. Tíminn hafi liðið hratt. „Maður er bara í því að fylgjast með þessu öllu, að þetta sé allt í lagi. Þetta var ekkert slæmur tími, þetta er bara hluti af vinnunni að bregðast við þegar eitt­hvað kemur upp á, að standa sína vakt og klára það. Þetta leið bara hratt.“

„Við búum okkur alltaf undir þetta fyrir haustið og erum með mat í frysti­skápum. Við getum verið þarna mánuð, jafn­vel tvo án utan­að­komandi að­stoðar,“ segir Hall­dór. Menn hafi þó sjaldan þurft að vera jafn­mikið upp í stöð og í vetur vegna veðursins. „Tíðin hefur verið ein­stak­lega leiðin­leg í vetur.“