Halldór Halldórsson, staðarumsjónarmaður við ratsjárstöðina á Gunnólfsvíkurfjalli, sem sat fastur uppi á fjallinu í stöðinni í tólf sólarhringa í desember síðastliðnum, segir í samtali við Fréttablaðið að sér þyki það ekki mikið tiltökumál, slíkt sé hluti af vinnunni. Það hafi þó verið í það lengsta sem hann hefur þurft að sitja á fjallinu.
Líkt og fram hefur komið greindi Landhelgisgæslan frá því á Facebook í dag að starfsmaður þess hefði setið fastur á Gunnólfsvíkurfjalli í tólf daga í óveðrinu í desember. Ratsjárstöðvarnar eru mikilvægur hlekkur í loftvarnarkerfi NATO og gegna veigamiklu hlutverki fyrir flugleiðsögu og öryggisfjarskipti landsins. Því er mikilvægt að þær séu mannaðar öllum stundum.
„Þetta er bara hluti af vinnunni, það er að vera uppi þegar það eru vond veður. Það var náttúrulega rafmagnsleysi hérna á svæðinu þannig að við þurftum að keyra vélar og halda öllu gangandi,“ segir Halldór léttur í bragði.
„Við erum náttúrulega með nóg af mat og allt svoleiðis þannig við þurfum enga utanaðkomandi aðstoð og eigum að geta verið þarna í að minnsta kosti mánuð held ég án aðstoðar,“ segir Halldór. „Kannski eina sem er, er dagvaran, líkt og mjólk en þá notar maður bara G-mjólkina.“
Halldór segir að allajafna séu tveir í stöðinni. Hinn starfsmaðurinn hafi verið veikur þegar veðrið skall á og svo ekki komist upp. „En þetta var með því lengsta þar sem þetta hefur gerst, að enginn komst upp til mín og ég komst ekki neitt, vegna rafmagnsleysisins.“
Spurður að því hvað hann geri sér til dægrastyttingar í slíkum aðstæðum segir Halldór að vinnan hafi átt hug hans allan. Tíminn hafi liðið hratt. „Maður er bara í því að fylgjast með þessu öllu, að þetta sé allt í lagi. Þetta var ekkert slæmur tími, þetta er bara hluti af vinnunni að bregðast við þegar eitthvað kemur upp á, að standa sína vakt og klára það. Þetta leið bara hratt.“
„Við búum okkur alltaf undir þetta fyrir haustið og erum með mat í frystiskápum. Við getum verið þarna mánuð, jafnvel tvo án utanaðkomandi aðstoðar,“ segir Halldór. Menn hafi þó sjaldan þurft að vera jafnmikið upp í stöð og í vetur vegna veðursins. „Tíðin hefur verið einstaklega leiðinleg í vetur.“