„Það er leitt að heyra að illdeilur innan verkalýðshreyfingarinnar hafi orðið til þess að formaður Alþýðusambandsins hafi sagt af sér,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtalið við Fréttablaðið um afsögn Drífu Snædal af formennsku ASÍ.

Halldór telur ljóst að undanfarið hafi mikið gengið á hjá verkalýðshreyfingunni og ASÍ. „Þetta er ekki gott fyrir samfélagið að neinu leiti,“ segir hann og bætir við að hann óski þess að ASÍ muni ná fyrr styrk.

„Á mannlegum nótum skil ég ákvörðun Drífu vel,“ segir Halldór og vísar til átakanna innan verkalýðshreyfingarinnar.

Aðspurður út í hvernig samstarfið hafi verið með Drífu segir hann að samskipti ASÍ og Samtaka Atvinnulífsins séu mjög víðtæk og því hafi gengið á mörgu. „Það hlakkar svo sannarlega ekki í mér, þvert á móti,“ segir hann.

Halldór segir of snemmt að segja til um hvaða áhrif afsögn Drífu muni hafa á komandi kjaraviðræður. Hann segist ætla að bíða eftir þingi sambandsins og þá muni framhaldið skýrast. „Við verðum einfaldlega að sjá hvernig sá leikur spilast.“