„Það er fátt nýtt undir sólinni. Ég hef nú verið í þessu nægi­lega lengi til þess að hafa séð þessar hug­myndir allar í einu eða öðru formi á liðnum árum,“ segir Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífsins um kröfu­gerð VR og LÍV sem birtist SA í morgun.

Hall­dór Benja­mín segir kröfu­gerðir stéttar­fé­laganna séu mikil­vægur á­fangi kjara­samninga­við­ræðum. „Við erum núna að mót­taka kröfu­gerð flestra stéttar­fé­laga um þessar mundir, það mun klárast núna á næstu vikum. Þetta er auð­vitað mikil­vægur á­fangi í ferlinu en verk­efnið sem okkar bíður er að klára kjara­samninga til nokkurra ára,“ segir hann.

Hann í­trekar að kröfu­gerðirnar eru ýtrustu kröfur verka­lýðs­hreyfingarinnar og að það beri að skoða þær í því ljósi.

Kröfur á borð við að­komu stjórn­valda í kjara­samnings­við­ræðum, stytting vinnu­vikunnar niður í fjóra daga og þak á leigu meðal þess sem fé­lögin krefjast fyrir komandi kjara­samnings­við­ræður.

Kjara­samningur á milli VR og LÍV annars vegar og SA hins vegar rennur út þann 1. nóvember næst­komandi.

Verð­bólgan er sam­eigin­legur ó­vinur

„Til langs tíma eru hlutir sem við getum tekið undir, enda snúast kjara­samningar um það að þróa á­fram ís­lenskan vinnu­markað og byggja undir lífs­kjör fólks. Það verður auð­vitað ekki gert í tóma­rúmi,“ segir Hall­dór Benja­mín.

Hann bendir á að verð­bólgan sé mjög skæð og það birtist í vaxta­hækkun Seðla­banka Ís­lands núna í morgun, en stýri­vextir voru þá hækkaðir um 0,75 prósentu­stig.

„Tónninn í Seðla­bankanum er með þeim hætti að undir­liggjandi verð­bólga án hús­næðis­hliðar er um það bil 7,5 prósent.,“ segir Hall­dór Benja­mín.

Hann bætir við að verð­bólga sé sam­eigin­legur ó­vinur launa­fólks og at­vinnu­rek­enda í landinu og telur kjara­samnings­við­ræður muni markast af þeirri stað­reynd og vonast til að skyn­samir samningar nái að kveða verð­bólguna í kútinn.

Sér tæki­færi í öllum að­stæðum

Hall­dór Benja­mín segist sjá tæki­færi í öllum að­stæðum og er bjart­sýnn fyrir við­ræðum í haust. „Ég hef tamið mér að sjá tæki­færi í öllum að­stæðum og að mörgu leyti tel ég að eftir sam­töl mín við verka­lýðs­hreyfinguna hringinn í kringum landið, þá skynja ég að það er vilji til sáttar,“ segir hann.

„Við höfum náð miklum árangri á undan­förnum árum, fólk finnur það á eigin skinni. Ég skynja að það séu tæki­færi til þess að halda á­fram að byggja undir það sem vel hefur gengið á undan­förnum árum,“ bætir hann við.