Halldór Auðar Svansson hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Pírata í Reykjavík og stefnir á þingsæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Hann tilkynnti þetta í dag.

Segir hann tilefni til að spyrja stóru spurninganna um það á hvaða grunni eigi að byggja upp að nýju og hverjir eigi að njóta góðs af næsta uppgangi efnahagslífsins.

„Vissulega er margt vel gert en ýmis merki eru uppi um að núverandi ríkisstjórn ætli einfaldlega ekki að skipta góðri viðspyrnu efnahagslífsins með sanngjörnum hætti. Þvert á móti er hætt við aukinni eignasamþjöppun, röð gjaldþrota og skorti á stuðning við einstaklinga og smærri fyrirtæki. Mestur kraftur er settur í björgunaraðgerðir stærri fjármagnseigenda,“ segir Halldór.

Segir hann „þráhyggju“ ríkisstjórnarflokkanna gagnvart því að selja hlut í Íslandsbanka dæmi um alvarlega fyrirlitningu á faglegu vinnubrögðum. Það þurfi einfaldlega umræðu um hvort yfir höfuð eigi að vera að selja bankana á markaði.

„Það ætti að vera hlutverk annarra flokka sem eru ekki alveg sömu kreddutrúarflokkar og Sjálfstæðisflokkurinn í þessum efnum að láta Bjarna Benediktsson og félaga allavega vinna aðeins fyrir því að standa fyrir máli sínu.“

Segist hann geta bætt ýmsu við:

„Svo sem um gagnsæi í stjórnsýslunni, vímuefnastefnu, geðheilbrigðismál, kvótakerfið, velferðarkerfin, aðstæður námsfólks, útlendingamál, leigumarkaðinn, sveitarfélögin ... en það mun gefast nægur tími á næstu mánuðum til að koma á framfæri hvað ég er að pæla.“

Hér fyrir neðan má sjá tilkynningu hans í heild sinni.