Stytting vinnuvikunnar hjá fólki í vaktavinnu hjá Reykjavíkurborg um kosta borgina um hálfan milljarð króna. Breytingin tekur gildi 1.maí samkvæmt kjarasamningum BSRB frá í fyrra.

Nú er fer fram innleiðing breytts vinnutíma hjá dagvinnufólki í borginni sem tók gildi um áramótin.

Alls 163 hópar á vinnustöðum hafa unnið að útfærslum fyrir hvern stað fyrir sig. „En auðvitað er fullt af hnútum sem á eftir að hnýta,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar í meirihlutastjórn borgarinnar um styttingu vinnuvikunnar hjá tugum þúsunda starfsmanna borgarinnar úr 35 tímum í 40.

Gríðarlega stór breyting

Stytting vinnuvikunnar mun hafa áhrif á 330 vinnustaði Reykjavíkur og vinnutíma um 10.200 starfsmanna. Reykjavíkurborg er langstærsti vinnustaðurinn þar sem vinnuvikan verður stytt, fyrst hjá 8500 starfsmönnum á 210 vinnustöðum og þann 1.maí hjá um 1700 vaktavinnufólki borgarinnar sem starfa á um 120 vinnustöðum.

Varðandi hættu á aukinni yfirvinnu vegna breytinganna, segir í svari mannauðssviðs Reykjavíkurborgar að með því verði fylgst: „Eitt helsta markmiðið með betri vinnutíma er að auðvelda starfsfólki samþættingu vinnu og einkalífs. Aukin yfirvinna gengur í berhögg við það markmið. Laun starfsmanna eiga ekki að lækka við styttingu vinnutíma en að sama skapi er ein helsta forsenda styttingarinnar að hún verði ekki til þess að auka útgjöld borgarinnar.“

Fylgst verði vel með markvissum mælingum og breytingar yfirvinnu eitt af því sem verður mælt.

Þurfa að hlaupa hraðar

Umræður um þetta áttu sér stað á fundi borgarráðs í gærkvöld og gagnrýnt að ekki fylgi nægt fjármagn breytingunni. Í bókun áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins segir m.a: „Það er sérkennilegt að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem að með styttingunni eykst álag á starfsfólk vegna undirmönnunar sem stytting vinnuviku leiðir til“, segir þar og ennfremur: „Þar sem engin viðbót verður á starfsfólki og starfsemin ekki styrkt með aukamönnun þarf hver og einn að hlaupa hraðar til að fá að fara einu sinni í viku fyrr heim. Góð þjónusta við börn byggir m.a. á að fjöldi stöðugilda sé í samræmi við fjölda barna og kröfur sem starfsemin gerir til starfsfólksins. Að óbreyttu mun stytting vinnuskyldu vaktavinnufólks, úr 40 í 36 virkar stundir, hafa veruleg áhrif á starfsemi margra starfsstaða og svokallað mönnunargat myndast.“

Vinnuvikan hjá dagvinnufólki hjá hinum opinbera styttist um allt að fjórar klukkustundir. Þann 1.maí tekur styttingin gildi hjá vaktavinnufólki. Þórdís segir þá framkvæmd mun flóknari. Um þetta var rætt í borgarráði í gær vegna mönnunargats sem skapast hjá þeim hópi. Ætlun borgarinnar er hins vegar að mönnunargatinu verði mætt á dagvinnutíma og í kostnaðarmati sé gert ráð fyrir að kostnaður vegna yfirvinnu lækki, miðaði við svar frá mannauðs- og starfsumhverfissviði sem birt var á fundinum.

Rætt við vaktavinnufólkið sjálft?

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins lagði fram bókun vegna mönnunargats sem blasi við þar sem starfsfólk starfar í vaktavinnu. „Áætlað er að kostnaður vegna yfirvinnu lækki og mönnunargatinu verði mætt á dagvinnutíma. Er búið að bera þessar breytingar undir vaktavinnufólk hjá Reykjavíkurborg? Margir neyðast til að taka yfirvinnu vegna slakra launa. Hér er boðað að skera eigi yfirvinnu niður. Samtals er kostnaður vegna þessa áætlaður tæpar 520 milljónir og þá eru B-hluta fyrirtækin eftir.“, segir í bókuninni.

Þá óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir uppfærðum tölum um fjölda starfa hjá borginni en töldu svarið til marks um það að Reykjavíkurborg hafi misst yfirsýn yfir stöðugildin hjá borginni en fjöldi starfsheita eru alls 618.